Systerni

Um daginn var hér spurt hvort til væri eitthvert kvenlægt orð sem samsvaraði orðinu bróðerni systerni er „eitthvað skrítið“ sagði fyrirspyrjandi. Í umræðum var minnt á orð eins og systralag og systraþel sem vissulega eru til í málinu þótt þau séu ekki mjög algeng og finnist ekki í almennum orðabókum, en einnig var bent á að bróðerni ætti ekkert síður við um konur en karla – skýring þess í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'gott samkomulag, vinsemd'. En það sýnir einmitt að orðin systralag og systraþel, svo ágæt sem þau eru, samsvara alls ekki bróðerni því að þau eru eingöngu notuð um konur að því er virðist. Væntanlega er verið að spyrja um orð sem hefur almenna merkingu en er laust við þann karllæga blæ sem bróðerni óneitanlega hefur.

Orðið systerni hljómar vissulega frekar ókunnuglega og er ekki í almennum orðabókum frekar en systralag og systraþel en það er þó til í málinu – á tímarit.is eru tíu dæmi um orðið, það elsta í Heimskringlu 1888. Í Skírni 1909 segir: „Það er systerni á milli nýnorðrænu málanna, t. d. norsku og sænsku.“ Þetta er í grein eftir Jóhannes L. L. Jóhannsson sem var málfræðingur (þó ekki lærður) og mikill málvöndunarmaður. Í Tímanum 1959 segir: „Eiginkonur Brútusar og Cæsars fá sér kaffisopa í systerni eftir víg Cæsars.“ Í Veru 1995 segir: „Þetta fór auðvitað fram í mesta systerni, eins og venjan er í Kvennalistanum.“ Dómur um tónleika fjögurra sópransöngkvenna í Lesbók Morgunblaðsins 2009 ber fyrirsögnina „Í ferauknu systerni“.

Viðskeytið -erni kemur fyrir í ýmsum orðum, m.a. skyldleikaorðunum faðerni, móðerni og bróðerni. Orðið systerni er myndað á sama hátt og ekkert við það að athuga frá orðmyndunarlegu sjónarmiði – það þarf bara að venjast því. Hins vegar er spurning hvað fólk vill láta það merkja. Í dæmunum sem tilfærð eru hér að framan, og öðrum dæmum sem ég hef fundið, hefur það augljóslega ekki almenna vísun heldur vísar til kvenna (eða kvenkynsorða eins og tungumálaheita) og er þar með ekki samsvörun við bróðerni. En vegna þess hversu sjaldgæft orðið er hefur sú merking ekki unnið sér hefð og því væri vel hægt að taka orðið upp í almennri merkingu og nota það um fólk af öllum kynjum – eins og bróðerni.