Að búa ekki yfir snefil/snefli af gæsku

Orðið snefill er ekki ýkja algengt en þó vel þekkt og einkum notað með neitun, í sambandinu ekki snefill sem skýrt er 'ekki vottur af e-u, ekki vitundarögn' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þótt það komi langoftast fyrir í nefnifalli eða þolfalli ættu önnur föll ekki að valda vandkvæðum, enda liggur beint við að beygja orðið eins og vel þekkt og algeng orð með sömu stofngerð svo sem hefill og trefill sem eru hefli og trefli í þágufalli eintölu. Þess vegna fannst mér áhugavert þegar ég rakst á orðalagið „láta eins og þau byggju yfir snefil af gæsku“ í nýrri skáldsögu. Sambandið búa yfir tekur venjulega með sér þágufall, en þarna er notuð þolfallsmyndin snefil í stað snefli sem búast mætti við út frá beygingu hliðstæðra orða.

Við nánari athugun kom í ljós að þetta er ekki einsdæmi. Í athugasemd við orðið í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Orðið er mjög sjaldséð í þágufalli en orðmyndunum snefli og snefil bregður fyrir.“ Á tímarit.is eru rúm 40 dæmi um snefli, t.d. „Hljómsveitin býr ekki yfir snefli af kunnáttu“ í Tímanum 1977. Erfitt er að leita að dæmum um að myndin snefil sé notuð í þágufalli en það virðist a.m.k. jafnalgengt – nefna má að fjögur dæmi eru um búa (ekki) yfir snefil en þrjú um búa (ekki) yfir snefli. Það kemur á óvart að snefill skuli þannig haga sér á annan hátt en önnur karlkynsorð með hljóðasambandið -efill í stofni sem öll virðast fá -efli í þágufalli – grefill, refill, skefill, Hnefill o.fl., auk hefill og trefill.

Hér er nauðsynlegt að athuga að töluverð breyting verður á stofni þessara orða í þágufalli eintölu (og allri fleirtölunni, í þeim orðum þar sem hún er notuð). Áherslulausa sérhljóðið i í viðskeytinu -ill fellur brott þegar beygingarending hefst á sérhljóði – trefil+i verður ekki *trefili, heldur trefli. Þetta er regla sem gildir undantekningarlítið um sérhljóðin a, i og u í áhersluleysi, sbr. hamar+i > hamri, jökul+i > jökli. En þegar i fellur brott úr sambandinu -efil leiðir það til þess að f (sem er borið fram v milli sérhljóða) og l standa saman, og sambandið fl inni í orðum eða í lok orða er ævinlega borið fram bl tefla og afl er borið fram tebla og abl. Þess vegna segjum við trebli og treblar þótt við berum fram v í trefill, trefil og trefils.

Við lærum þessar stofnbreytingar áreynslulaust á máltökuskeiði og hugsum ekkert út í þær þegar við notum algeng orð eins og hefill og trefill. En almennt séð viljum við helst halda stofni orða sem mest óbreyttum í öllum beygingarmyndum og þess vegna geta hljóðbreytingar af þessu tagi truflað okkur þegar um er að ræða sjaldgæfar myndir. Sú virðist vera raunin með orðið snefill sem er langoftast notað í þolfalli og þágufalli eins og áður segir. Þegar við þurfum að nota þágufallið eigum við það því ekki „á lager“ ef svo má segja, heldur þurfum að búa það til í samræmi við þær reglur sem við kunnum. Það þýðir að við förum að hugsa út í það, og þá tökum við eftir því hversu miklar breytingar þarf að gera á stofninum í myndinni snefli.

Það er hægt að forðast myndina snefli með því að sleppa því að bæta við -i í þágufalli. Það er í sjálfu sér ekki andstætt málkerfinu – þótt meginhluti sterkra karlkynsorða fái að vísu -i í þágufalli eintölu er líka mikill fjöldi orða endingarlaus í því falli. En ef endingunni er ekki bætt við verður ekki neitt brottfall úr stofninum og við fáum myndina snefil – sem er eins og þolfallsmyndin en samt góð og gild þágufallsmynd. Með þessu móti er hægt að forðast myndina snefli sem vissulega hljómar nokkuð framandi. Orðið er aldrei notað í fleirtölu en ef við þyrftum á fleirtölunni að halda gætum við ekki leyst málið á sama hátt – þar er enginn annar kostur en nota endingar sem hefjast á sérhljóði og fá út *sneflar, borið fram sneblar.

Það er ekkert einsdæmi að reynt sé að forðast myndir með hljóðbreytingum í stofni. Orðanefnd Verkfræðingafélags Íslands vildi t.d. fremur nota veiku myndina rafali sem þýðingu á elektrisk generator en sterku myndina rafall. Ástæðan virðist hafa verið sú að nefndin vildi forðast fleirtöluna raflar sem væri borið fram rablar og nota fremur rafalar. Það er líka sagt að þegar stofnun fyrirtækis til að standa að gerð Hvalfjarðarganga var í undirbúningi hafi flestum litist vel á heitið Spölur – þangað til fólk áttaði sig á því að það ætti að vera Speli í þágufalli en sú mynd var nær óþekkt fram að því og hljómaði mjög framandi í upphafi. En hún vandist þó fljótt og nú man fólk tæpast eftir því að hún hafi nokkurn tíma þótt undarleg.