Hrafnadís

Í nýjum úrskurði Mannanafnanefndar er nafninu Hrafnadís hafnað á tvennum forsendum – annars vegar sé það „afbökun á eiginnafninu Hrafndís“ og hins vegar fari það „í bág við hefðbundnar nafnmyndunarreglur eiginnafna“, þ.e. „þeirri meginreglu íslenskrar nafnmyndunar að eignarfall fleirtölu sé ekki í forlið eiginnafns“. Þetta er mjög sérkennilegur úrskurður sem ég get ekki kallað annað en rugl. Í samsettum orðum getur fyrri liður ýmist verið stofn, eins og í Hrafndís, eða eignarfall – annaðhvort eintölu eða fleirtölu. Þetta eru jafngildar orðmyndunaraðferðir og fjölmörg dæmi eru um hliðstæðar tvímyndir þar sem fráleitt er að kalla aðra „afbökun“ af hinni. Fjöldi margs kyns tvímynda af mannanöfnum er líka til.

Ég kannast ekki heldur við að einhverjar sérstakar reglur gildi um mannanöfn sem banni að fyrri liður þeirra sé í eignarfalli fleirtölu. Sú „regla“ er bara tilbúningur nefndarinnar og mér finnst hún fara langt út fyrir öll eðlileg mörk í túlkun sinni á því hvað „brjóti í bág við íslenskt málkerfi“ enda eru vissulega til nöfn á mannanafnaskrá þar sem fyrri liður er í eignarfalli fleirtölu, svo sem Eyjalín, Rósalind, Alparós og Reykjalín og til dæmis. Tvö síðarnefndu nöfnin hafa m.a.s. verið samþykkt sérstaklega af Mannanafnanefnd án þess að nokkrar athugasemdir væru gerðar við myndun þeirra. Það er löngu kominn tími á að breyta lögum um mannanöfn og verður að vona að nýr dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp að nýjum lögum hið fyrsta.