Allar góðar vættir

Nýlega var hér umræða um kyn nafnorðsins vættur. Orðið er upphaflega kvenkynsorð og beygist þá vættur vætti vætti vættar í eintölu og vættir vættir vættum vætta í fleirtölu. En vegna þess að það hefur hina venjulegu nefnifallsendingu karlkynsorða -ur, sem mjög fá kvenkynsorð hafa, hefur lengi verið rík tilhneiging til að hafa það í karlkyni og má finna þess dæmi þegar í fornmáli. Þá er beygingin vættur vætt vætti vættar í eintölu og vættir vætti vættum vætta í fleirtölu. Beygingin fellur því saman í öllum föllum nema þolfalli eintölu og fleirtölu, og oft verður því að ráða kynið af meðfylgjandi lýsingarorði eða fornafni. En ef orðið er með greini er samfall aðeins í þágufalli og eignarfalli fleirtölu – vættunum og vættanna.

Með því að gefa orðinu karlkyn er leitast við að laga það að málkerfinu þar sem -ur er dæmigerð karlkynsending eins og áður segir, en einnig eru dæmi um að orðið sé lagað að venjulegri beygingu kvenkynsorða með því að klippa endinguna af og hafa nefnifallið vætt. En karlkynið hefur lengi verið svo algengt að það hefur öðlast viðurkenningu í formlegu máli – „Upphaflega var nafnorðið vættur kvenkynsorð en tíðkast nú ekki síður í karlkyni“ segir Málfarsbankinn. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið gefið sem kvenkynsorð en „pop.“ sem karlkynsorð, þ.e. í talmáli. Í bók Valtýs Guðmundssonar, Islandsk Grammatik frá 1922, er orðið gefið sem karlkynsorð en bætt við innan sviga: „ogsaa Huk.“, þ.e. „einnig kvenkynsorð“.

Ýmsar samsetningar eru til með -vættur sem seinni lið, þær helstu bjargvættur, hollvættur, landvættur, óvættur og verndarvættur. Um þær flestar eða allar gildir hið sama, að þær koma fyrir bæði í kvenkyni og karlkyni, en hins vegar er misjafnt hvort kynið er algengara. Orðin hollvættur, landvættur og verndarvættur eru algeng í báðum kynjum og ekki hægt að skera úr um hvort sé algengara. Í fornu máli er óvættur mun algengara í karlkyni en kvenkyni og svo er líklega enn þótt erfitt sé að fullyrða um það. En bjargvættur sker sig nokkuð úr – það er margfalt algengara í karlkyni en kvenkyni. Á tímarit.is eru t.d. 13 dæmi um kvenkynsmyndina bjargvættirnar í nefnifalli fleirtölu, en 625 um karlkynsmyndina bjargvættirnir.

Skýringarinnar er líklega að leita í mismunandi merkingartilbrigðum. Í Íslensk-danskri orðabók er kvenkynsmyndin skýrð 'hjælpende Aand, hjælpsomt Væsen, Skytsaand' ('verndarandi' í Íslenskri orðabók) en karlkynsmyndin sem merkt er „pop.“ er skýrð 'Hjælper, Understøtter, Befrier, Redningsmand' ('hjálparhella, hjálparmaður' í Íslenskri orðabók). Í flestum samsetningum er vættur sem sé einhver yfirskilvitlega vera en það gildir ekki um algengustu notkun orðsins bjargvættur. Svo má velta því fyrir sér hvers vegna karlkynið sé yfirgnæfandi í merkingunni 'hjálparhella, hjálparmaður' – er það vegna þess að dæmigerðu bjargvættur í huga fólks sé karlmaður? Um það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða.