Naumt tap Hákons
Ég sá á Facebook að vakin var athygli á fyrirsögninni „Naumt tap Hákons og félaga“ á mbl.is, og spurt hvort eignarfallið væri ekki Hákonar. Það er vissulega hin hefðbundna mynd, og sú eina sem gefin er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en myndin Hákons er þó fjarri því að vera einsdæmi og hefur oft verið amast við henni í málfarsþáttum. Jón Aðalsteinn Jónsson nefndi nokkur dæmi um hana í dálkinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1991 og sagði: „Þetta ef. hefur heyrzt oftar í fjölmiðlum.“ Á sama vettvangi tíu árum síðar sagðist Jón Aðalsteinn hafa heyrt talað um „brúðkaup Hákons, en ekki Hákonar, eins og ég ætla, að flestir segi enn í dag samkv. fornri venju“ og sagði: „Því er fljótsvarað, að ef. Hákonar er upphaflega myndin.“
Það er vissulega rétt að eignarfallið var yfirleitt Hákonar áður fyrr en myndin Hákons er þó gömul og kemur m.a.s. fyrir í Heimskringlu Snorra Sturlusonar: „Ólafur Tryggvason hélt utan í fjörðinn með fimm langskipum en þar reri innan í móti Erlendur sonur Hákons jarls með þremur skipum“ segir í Ólafs sögu Tryggvasonar. Á tímarit.is eru rúm 1500 dæmi um Hákons, það elsta í Norðanfara 1865: „húsfrú Sigríður Jónsdóttir kona prestsins sjera Hákons Espólíns á Kolfreyjustað.“ Einnig eru dæmi um myndina í samsetningum – í Austra 1906 segir: „Bjørgvinarbúar hafa skotið saman allmiklu fé til þess að skreyta gömlu Hákons-höllina þar.“ Töluvert ber svo á myndinni Hákons alla tuttugustu öldina, einkum eftir 1980.
Sú notkun endurspeglast í áðurnefndum athugasemdum Jóns Aðalsteins, sem og í bókinni Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson frá 1991 þar sem sagt er að eignarfallið af Hákon sé Hákons. Þetta gagnrýndi Baldur Jónsson í Málfregnum 1992 og sagði: „Til dæmis er ótvírætt að eignarfallið af Hákon hefir verið Hákonar síðan land byggðist.“ Undir þetta tók Þórhallur Vilmundarson í gagnrýni á bókina í Lesbók Morgunblaðsins 1992: „Eignarfallið hefur að sjálfsögðu frá öndverðu og fram á þennan dag verið Hákonar […].“ Gísli Jónsson sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2001: „eignarfallið „Hákons“ sést í vönduðum fræðibókum […] Ástæðulaust sýnist mér a.m.k. að nota ekki gamla eignarfallið Hákonar.“
En eignarfallsmyndin Hákons hefur haldið áfram að breiðast út á þessari öld. Í Risamálheildinni eru 1.100 dæmi um hana, en rúm 2.500 um „viðurkenndu“ myndina Hákonar. Öfugt við það sem algengast er um málbreytingar er „nýja“ myndin síst meira áberandi á samfélagsmiðlum en í hefðbundnari miðlum og hefur því greinilega fest sig tryggilega í sessi í formlegu málsniði. Þetta er breyting sem er sauðmeinlaus og á sér fjölda hliðstæðna í málinu þótt breytingar á eignarfalli karlmannsnafna hafi reyndar flestar gengið í hina áttina (Haralds > Haraldar, Höskulds > Höskuldar, Ágústs > Ágústar, Þórhalls > Þórhallar). Engin ástæða er til annars en viðurkenna Hákons sem fullgilda eignarfallsmynd við hlið Hákonar.