Kerum eða kerjum?

Í hópnum „Málspjall“ var í gær spurt hvort þágufall fleirtölu af ker gæti verið bæði kerum og kerjum, og vísað í orðið gler þar sem þágufall fleirtölu er glerjum. Tilefnið er væntanlega fyrirsögn í Vísi – „Telja eldinn hafa komið upp úr kerum með olíu og eldsneyti“. Því er til að svara að í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru myndirnar kerum og kerjum báðar gefnar í þágufalli fleirtölu, sem og kera og kerja í eignarfalli fleirtölu. En oft hefur verið amast við myndunum með j. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: Heyrst hefur: Vatnið er geymt í kerjum. Rétt væri: Vatnið er geymt í kerum. (Munið „leirkerasmiðinn“ á góðum stað!). Og í Málfarsbankanum segir: „þgf.ft. kerum, ef.ft. kera. Sbr. leirkerasmiður.“

Orðið ker kemur fyrir í fornu máli og er þar ævinlega j-laust í þágufalli og eignarfalli fleirtölu. Hins vegar eru myndir með j ekki nýjar. Elsta dæmi sem ég finn á tímarit.is er í Norðlingi 1875: „Í blautum kerjum fær maðurinn á 1 hest.“ Í Norðanfara sama ár segir: „þar sem reynt var að höggva meira í kerjum og votengi.“ Í Heimskringlu 1887 segir: „Millum kerja þessara er víða smá skógur og lúða gras.“ Þarna er ker í merkingunni ‘kringlóttir flóapollar’ sem nefnd er í Íslenskri orðabók, en í „Nál. 2 ál. undir yfirborði fundust leifar af 2 kerjum og svo sem 1 fet á milli“ í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1906 er orðið í merkingunni ‘grunnt og fremur stórt opið ílát, kringlótt eða ílangt, einkum undir vökva’ sbr. Íslenska nútímamálsorðabók.

Myndir með virðast hafa verið að sækja á. Á tímarit.is eru rúmlega 2.500 dæmi um kerum (eitthvað af þeim gæti þó verið um karlkynsorðið keri) en 1.650 dæmi um kerjum. Í Risamálheildinni eru rúm 750 dæmi um kerum en tæp 540 um kerjum. Það er nokkuð ljóst að er komið inn í beyginguna fyrir áhrif frá orðum með svipaða stofngerð, eins og hvorugkynsorðunum bergler og sker og karlkynsorðinu her. Orð með þessa stofngerð án j eru til, en flest sjaldgæf eða ekki notuð í fleirtölu, nema hvort tveggja sé. Þetta eru orð eins og der (húfuder) og ger – myndinni fuglagerjum af samsetningunni fuglager bregður þó fyrir: „Hann er algengur í fuglagerjum á Faxaflóa“ segir t.d. í Náttúrufræðingnum 2010.

Myndin leirkerasmiður sem Málfarsbankinn og Gætum tungunnar vísa til „á góðum stað“ kemur fyrir á nokkrum stöðum í Biblíunni og er vissulega án j. Það eru hins vegar ekki nægileg rök fyrir því að beyging orðsins ker eigi að vera j-laus. Það er algengt í málinu að beygingarmynd orða sem hluta af samsetningum sé frábrugðin því sem er í orðunum einum sér. Þetta á enn frekar við um orð sem eru gömul í málinu – breytingar á beygingu orðanna sjálfstæðra hafa ekki endilega áhrif á myndir þeirra í samsetningum. Það er eðlilegt að ker verði fyrir áhrifum frá orðum með svipaða stofngerð, myndirnar kerjum og kerja eru gamlar í málinu og verða sífellt algengari. Engin ástæða er til annars en telja þær jafnréttar og kerum og kera.