Ensk áhrif eða ekki?
Það er enginn vafi á því að ensk áhrif á íslenska setningagerð hafa farið vaxandi á síðustu árum. Þessi áhrif eru oft mjög lúmsk vegna þess að orðin eru íslensk og notuð í hefðbundinni merkingu (þótt vissulega geti hún líka hnikast til) en eitthvað í því hvernig orðin standa í setningu er frábrugðið því sem venja er í íslensku. Munurinn er þó oft svo lítill að við tökum ekki eftir honum í máli annarra, enda erum við sjálf oft orðin gegnsósa í ensku. En í frétt á vefmiðli í morgun staldraði ég þó við setninguna „Trump hótar enn fleiri tollgjöldum skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum“ vegna þess að mér fannst notkun sagnmyndarinnar skyldi þarna einhvern veginn bera keim af enskri setningagerð – should Putin not.
Formlega séð virðist ekkert athugavert við þetta. Þarna er skilyrðissetning, „skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum“ sem er ekki tengd er við aðalsetninguna „Trump hótar enn fleiri tollgjöldum“ með hinni dæmigerðu skilyrðistengingu ef – einnig væri hægt að segja Trump hótar enn fleiri tollgjöldum ef Pútín heldur ekki áfram í vopnahlésviðræðum. En það er alkunna að skilyrðissetningar hafa þá sérstöðu meðal aukasetninga að hægt er að sleppa tengingunni en byrja aukasetninguna þess í stað á sögn í viðtengingarhætti – hægt er að segja bæði ég verð glaður ef hún getur hjálpað mér og ég verð glaður geti hún hjálpað mér. Er þá ekki skilyrðissetningin skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum í góðu lagi?
Ég hef samt á tilfinningunni að ekki sé venja í íslensku að nota sögnina skulu alveg svona, en vissulega er þetta ekki einsdæmi og ég finn slæðing af svipuðum setningum frá síðustu árum, svo sem „hindra að Bush forseti grípi til þess að ákveða að ráðast á Íran, skyldi hann vilja gera það“ í Fréttablaðinu 2007 „Ég skal taka það á mig að láta Carlsen vita að Íslendingar taka óþekkum skákmönnum opnum örmum skyldi hann vilja ísl. ríkisfang“ á Twitter 2015, „Það verður áhugavert að fylgjast með samskiptum Suarez og varnarmanna Juventus skyldu liðin mætast í úrslitum“ á fótbolti.net 2015, „Endurnýjun á miðju United gæti gert Skotanum kleift að yfirgefa herbúðir félagsins, skyldi hann vilja það“ í mbl.is 2023, og nokkrar fleiri.
En svo er þetta kannski ekkert nýtt. Í leikritinu „Gizurr Þorvaldsson“ eftir séra Eggert Ó. Briem, sem birtist í Draupni 1895, segir t.d.: „En skyldi hann vilja heyra tillögur mínar um það mál í dag, mun eg mæla svo, sem mér þá þykir sannlegast.“ Þarna er skyldi notað í upphafi skilyrðissetningar eins og í dæmunum að framan. Vegna þess að við vitum af vaxandi enskum áhrifum má alltaf búast við því að við þykjumst sjá slík áhrif víðar en þau eru í raun – höldum að eitthvað sem svipar til ensku hljóti að vera komið þaðan þótt það hafi lengi tíðkast í málinu. Það má ekki gleyma því að íslenska og enska eru skyld mál. Mér finnst samt enn að setningin sem vitnað var til í upphafi sé eitthvað enskulegri en aðrar – en átta mig ekki alveg á muninum.
En ef það kæmi nú í ljós við nánari athugun að þarna væri um ensk áhrif að ræða – hvaða áhrif hefði það á mat okkar á slíkum setningum og viðhorf til þeirra? Það er ljóst að um smávægilega breytingu væri að ræða sem tekur bara til einnar sagnar, skulu, og hefur ekki áhrif á kerfið í heild. Ótal sambærilegar breytingar hafa orðið á málinu á undanförnum áratugum og öldum án þess að við sjáum ástæðu til að amast við þeim – og oftast reyndar án þess að við gerum okkur grein fyrir þeim. Þótt við viljum vitanlega halda í íslenska setningagerð sé ég því enga ástæðu til að ergja sig sérstaklega á þessari breytingu – ef þetta er breyting. Hins vegar er sjálfsagt að vera á varðbergi gagnvart enskum áhrifum sem gera sig líkleg til að hafa áhrif á málkerfið.