„Vestlendinga uggir“

Í „Málvöndunarþættinum“ var umræða um fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í gær: „Vestlendinga uggir vegna veiðigjalda.“ Merkingarlega séð er ekkert athugavert við notkun sagnarinnar ugga þarna – ljóst er af fréttinni að hún er notuð í merkingunni 'óttast, vera hræddur um (e-ð)' sem er önnur aðalmerking hennar samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Sögnin ugga í þessari notkun hefur raunar lengi verið sjaldgæf eins og m.a. kemur fram í grein Halldórs Halldórssonar í Íslensku máli 1982 þar sem hann segir frá könnun á notkun frumlagsfalls meðal 19-20 ára nemenda árið 1981. „Þá virtust nokkuð margir aldrei hafa heyrt mig sundlaði og mig uggir, og sögnin ugga yfirleitt virtist líka heldur lítt kunnugt dæmi.“

Í þessari merkingu tekur ugga venjulega þolfallsfrumlag eins og hún gerir í fyrirsögn Morgunblaðsins, en þó er ekki hægt að segja að notkunin sé þar í fullu samræmi við málhefð. Í öllum notkunardæmum, í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók tekur hún nefnilega með sér skýringarsetningu, t.d mig uggir að illt muni hljótast af; hann uggði að hann yrði ekki langlífur. Ég sé ekki betur en þannig sé sögnin undantekningarlítið notuð, a.m.k. á síðari öldum – auk þolfallsfrumlagsins þarf hún að taka með sér annan röklið (fallorð eða fallsetningu). „Vestlendinga uggir“ er því hliðstætt við mig langar, mig vantar án upplýsinga um það hvað mig langar í eða hvað mig vantar.

Nú gætu einhver auðvitað sagt að það kæmi fram í framhaldinu „vegna veiðigjalda“ hvað veldur þessum ugg. Það er út af fyrir sig rétt að merkingin kemst til skila með því. En það er ekki nóg því að sagnir gera ekki bara merkingarlegar kröfur til þeirra liða sem standa með þeim, heldur einnig setningafræðilegar kröfur. Sumar sagnir taka ekkert andlag, t.d. ég sef, aðrar geta tekið andlag en þurfa þess ekki eins og ég les (bókina), enn aðrar verða að taka andlag eins og ég óttast veiðigjöldin – *ég óttast gengur ekki eitt og sér, ekki frekar en *mig uggir. Svo eru sagnir sem taka eða geta tekið tvö andlög, eins og ég gaf henni bókina. Sumar sagnir geta svo tekið fallsetningu (-setningu) sem andlag og ugga er ein af þeim sem verða að taka slíkt andlag.

Hins vegar hefur lýsingarháttur nútíðar af sögninni, uggandi, öðlast sjálfstætt líf sem lýsingarorð og er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem hann er skýrður 'kvíðafullur, sem býst við illu' – sem passar nákvæmlega í þessu tilviki. Það er auðvitað ekkert einsdæmi að lýsingarháttur nútíðar verði að sjálfstæðu lýsingarorði en ekki algengt að hann verði svo margfalt algengari en sögnin sem hann er leiddur af – rúm fimm þúsund dæmi eru um uggandi í Risamálheildinni. Það er líka sérkennilegt við lýsingarorðið að ólíkt sögninni getur það staðið án framhalds – Vestlendingar uggandi (vegna veiðigjalda) væri fullkomlega eðlileg setning. E.t.v. hefur það ruglað höfund áðurnefndrar fyrirsagnar í ríminu.