Vertíð
Í „Málspjalli“ var í gær spurt út í orðið vertíð sem í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýrt 'samfelldur tími ársins þegar fiskur er veiddur'. Fyrirspyrjandi benti á að orðið væri nú iðulega notað í ýmsu samhengi þar sem sjór eða fiskur kæmi hvergi nærri, og þá að því er virtist í merkingunni 'tímabil' eða 'törn'. Í Íslenskri orðabók er reyndar merkingin 'mikilvægasti anna- og teknatími' gefin til viðbótar fiskveiðimerkingunni, með dæminu desembersalan var vertíð kaupmannsins, og fjöldi samsetninga með vertíð sem ekki koma fiskveiðum við er til í málinu, ekki síst íþróttamáli, svo sem bókavertíð, ferða(manna)vertíð, golfvertíð, grillvertíð, handboltavertíð, jóla(bóka)vertíð, knattspyrnuvertíð, körfuboltavertíð, skíðavertíð o.s.frv.
Þessi notkun orðsins vertíð er ekki ný – Gísli Jónsson amaðist margoft við henni í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu á síðustu öld. Hann sagði í þætti 1981 að orðið virtist „notað í tíma og ótíma í stíl við enska orðið season, sem reyndar merkir upphaflega sáðtíð (lat. satio)“ og bætti við: „Einkum verð ég var við áníðsluna á vertíð, þegar sagt er frá íþróttum.“ Í þætti 1987 sagði hann svo: „Það er hreint með ólíkindum hvernig búið er að misþyrma orðinu vertíð í öllum mögulegum samsetningum.“ Gísli vitnaði í orðin keppnisvertíð og siglingavertíð sem hefðu komið fyrir í fréttum og sagði: „Þegar sagt er frá keppnistíð og siglingartíð, á orðið ver ekkert erindi þar inn.“ Gísli vildi sem sé láta -tíð nægja sem seinni lið samsetninga í stað -vertíð.
Það er örugglega rétt hjá Gísla að enska orðið season hefur ýtt mjög undir þessa notkun á vertíð en hún er þó eldri en svo að erlend áhrif dugi til að skýra uppruna hennar sem má a.m.k. rekja aftur á sjötta áratug síðustu aldar. Í Vísi 1959 segir: „Fréttamaður Vísis […] spurðist fyrir um, hvers væri helzt að vænta á þeirri bókavertíð, sem í hönd færi.“ Í Alþýðublaðinu 1960 segir: „Menn byrja jólavertíð sína misjafnlega snemma.“ Í Þjóðviljanum 1962 segir: „á hinni skömmu sumarverzlunarvertíð sinni norður hér.“ Notkun orðsins í íþróttafréttum virðist koma aðeins síðar. Í Nýjum vikutíðindum 1963 segir: „Knattspyrnuvertíðin er byrjuð af fullum krafti.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Handknattleiksvertíðin hefst á laugardaginn.“
Ástæðan fyrir því að farið var að nota orðið vertíð í þessu samhengi er væntanlega sú að auk merkingarþáttanna 'fiskveiði' og 'afmarkað tímabil' fékk orðið merkinguna 'vinnutörn' eða 'uppgrip' í huga fólks – sem átti vel við um vertíð í hefðbundinni merkingu (þótt uppgripin brygðust vissulega stundum). Í þeirri notkun orðsins sem hér um ræðir verður síðastnefndi merkingarþátturinn ráðandi en sá fyrstnefndi fellur brott – tengslin við fiskveiði rofna og úr verður eðlileg og sjálfsögð líking sem ótal fordæmi eru fyrir í málinu. Vissulega væri hægt að sleppa -ver- og tala bara um jólabókatíð og knattspyrnutíð í staðinn fyrir jólabókavertíð og knattspyrnuvertíð en þá glatast líkingin og þar með merkingin 'törn'. Það væri skaði.