Hann býr niður við höfnina
Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvort ætti að segja hann býr niður við höfnina eða hann býr niðri við höfnina. Í svörum var m.a. vísað í Málfarsbankann þar sem segir: „Atviksorðið niðri er notað um dvöl: vera niðri í fjöru. Atviksorðið niður er nota um hreyfingu: fara niður í fjöru.“ Þetta er vissulega það sem lengi hefur verið boðað og kennt – í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir t.d.: „Rétt væri að segja: Hann var uppi á fjallinu en kom ofan hlíðina niður í dalinn og er nú niðri við ána.“ En í umræðum kom þó fram að sumum fannst bæði niður og niðri ganga og ég tek undir það – ég held meira að segja að ég myndi frekar segja niður við höfnina þótt ég hefði sennilega skrifað niðri við höfnina af því að ég veit að þannig „á“ það að vera.
Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að atviksorðin niður og niðri falla mjög oft saman í framburði vegna þess að áherslulausa sérhljóðið, u í niður og i í enda niðri, fellur yfirleitt brott þegar næsta orð hefst á sérhljóði. Næsta orð er mjög oft annaðhvort á eða í og þá er sagt niðrá og niðrí – niður á/í er mjög formlegur framburður og niðri á/í fullkomlega óeðlilegur. Dæmi Málfarsbankans sem vitnað var til hér að framan, vera/fara niðri/niður í fjöru, er þess vegna óheppilegt vegna þess að framburðurinn er nákvæmlega sá sami í báðum tilvikum, niðrí. Munurinn kemur ekki fram nema í riti, og þetta ýtir vitanlega undir það að orðin blandist saman. Svipað gildir um nokkur önnur pör atviksorða, eins og upp og uppi, út og úti, inn og inni.
Á tímarit.is eru samtals rúm þrjátíu dæmi um búa niður við, það elsta í Breiðabliki 1907: „Sumarbústöðum Winnipeg-búa niður við vatnið mikla með sama nafni fer stöðugt fjölgandi.“ Dæmin um búa niðri við eru aðeins færri, tæp þrjátíu, það elsta í Bjarka 1899: „jeg er systir eins bóndans hjer, ameriska mansins, sem býr niðri við ána.“ Í Risamálheildinni eru tíu dæmi um búa niður við en tólf um búa niðri við. Ýmsar fleiri hliðstæður má nefna þar sem niður og niðri hafa verið notuð jöfnum höndum í dvalarmerkingu a.m.k. síðan um aldamótin 1900. Á tímarit.is eru t.d. átján dæmi um eiga heima niður við en tíu um eiga heima niðri við, rúmlega tuttugu dæmi um dvelja niður við en rúmlega þrjátíu um dvelja niðri við.
En notkun niður í dvalarmerkingu er mun eldri – það sýna ýmis dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. „Eg var þá ekki vel til passa, svo eg lá niður í skipi“ segir í texta frá 17. öld í Blöndu V. Í greininni „Um eðli og uppruna jarðarinnar“ eftir Jónas Hallgrímsson í Fjölni 1835 segir: „Niður í jörðinni eru víða gjótur og gjár.“ Í „Úr bréfi frá Íslandi“ eftir Tómas Sæmundsson í sama árgangi Fjölnis segir: „Var eg jafnan uppá þiljum, þegar á fótum gat verið, því niður í skipi var mjög ógurlegt.“ Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1864 segir: „Þokulaust var niður í dalnum.“ Í Sagnakveri Skúla Gíslasonar frá miðri nítjándu öld segir: „Bóndi þessi var eitt sinn að smíðum niður við sjó.“ Fjölmörg önnur nítjándu aldar dæmi mætti tilgreina.
Þetta þýðir samt ekki að alltaf sé hægt að nota niður í dvalarmerkingu – það er bundið við notkun orðsins með forsetningum en gengur ekki ef það er notað eitt og sér. Dæmi eru um vera niður við höfn / á torgi / hjá sjónum / í bæ o.fl., en hins vegar er útilokað að vera bara niður í dvalarmerkingu – spurningunni hvar ertu? er ekki hægt að svara með *(ég er) niður, heldur verður að segja (ég er) niðri. En það er ljóst að notkun niður með forsetningu í dvalarmerkingu á sér a.m.k. tvö hundruð ára óslitna sögu og virðist alla tíð hafa verið algeng, a.m.k. í ákveðnum samböndum. Vitanlega er engin ástæða til annars en telja þá notkun góða og gilda – hann býr niður við höfnina er rétt mál, samkvæmt öllum venjulegum viðmiðum.