Meira um vænskilegt
Fyrir skömmu skrifaði ég hér um tökuorðið vanski(l)legur og nefndi einnig myndina vænskilegur sem er hvergi að finna í orðabókum og aðeins eitt dæmi er um í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans – úr Eimreiðinni 1911 þar sem segir: „„Mig hefir lengi langað til að skrifa um hestsins exteriör“, sagði hann, „en það er so vænskilegt, af því að það eru so fá úðtrukk til á íslenzku“.“ Þetta er úr kaflanum „Óþörf orð“ í grein eftir Guðmund Björnsson sem heitir „Um ný orð“. Þarna er vænskilegt greinilega notað í merkingunni 'erfitt' eins og vanskelig í dönsku. En í flestum öðrum dæmum á tímarit.is gæti merkingin verið 'varasamt' og oft er ótvírætt að svo er. Flest virðast tengjast Norðurlandi en þó er ekki hægt að fullyrða það um tvö þeirra.
Elsta dæmið er í Vikunni 1940 þar sem segir: „Einnig þótti þeim stofan á bænum vænskileg til þess að taka þar á sig náðir.“ Þetta er úr grein sem heitir „Þegar ég kom til útilegumanna“ og skýrir titillinn hvers vegna stofan var vænskileg. Greinin er eftir Einar Guðmundsson sem ég veit ekki hvaðan var. Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 er haft eftir viðmælanda: „Svo er það nú þannig með ykkur þessa blaðamenn, að þið eruð vænskilegir gripir. Getið átt til að umturna öllu og færa til verri vegar, færa það, sem ykkur er sagt í form, sem ekki tilheyrir.“ Þetta er haft eftir manni á Þingeyri en þótt það sé sett fram sem bein tilvitnun er vissulega er ekki útilokað að orðalagið sé komið frá blaðamanninum, Sveini Kristinssyni, sem var Skagfirðingur.
Í Verkamanninum sem gefinn var út á Akureyri segir 1944: „kannske ástæðan sé sú, að höfundur bókarinnar, hver svo sem hún er, teljist vænskilegur í augum húsbændanna, hvað hollnustu áhrærir.“ Samhengið bendir ákveðið til þess að merkingin í vænskilegur sé þarna 'varasamur'. Höfundur gæti verið ritstjórinn, Jakob Árnason. Tvö dæmi um orðið eru komin frá Rósberg G. Snædal rithöfundi sem var Húnvetningur að uppruna. Í Þjóðviljanum 1970 segir: „sum orð eru svolítið vænskileg og ofnotkun þeirra getur hæglega leitt til þess, að við hættum jafnvel að taka eftir raunverulegri merkingu þeirra.“ Í Húnavöku 2019 segir: „Þar er áin breið og ekki djúp en flúðir eru þar miklar örskammt neðar og vaðið því vænskilegt ef eitthvað ber útaf.“
Enn eitt dæmi af þessu tagi er í fyrirsögn greinar eftir Akureyringinn Kristin G. Jóhannsson í Degi 1992: „Um vorið á þorranum og vænskileg áhrif óhefts sólarljóss á konur“. Í greininni segir m.a.: „En nú líður að konudegi […]. Hann er einkar varasamur núna.“ Samhengið sýnir að ástæðan eru vænskileg áhrif sem nefnd eru í fyrirsögn – vænskileg og varasöm er það sama. Eitt norðlenskt dæmi til viðbótar, í Feyki 1982, er þó annars eðlis – þar segir: „Hausaflutningur frá sláturhúsum er ekki vænskilegur og ætti enginn að flytja upp í sveit nema hausa af sínum lömbum.“ Það er ljóst að merkingin 'varasamur' á ekki við þarna (og ekki heldur 'erfiður') og líklegast virðist að þetta sé einhvers konar samsláttur af orðunum vænlegur og æskilegur.
Nokkur þeirra sem tóku þátt í umræðu um fyrri pistil minn um málið – nær öll af Norðurlandi – könnuðust við myndina vænskilegt í merkingunni 'varasamt'. Það gladdi mig því að það sýndi að ég mundi það rétt að þetta orð hefði verið notað í mínu málumhverfi í æsku minni og hver merking þess hefði verið. Væntanlega á það uppruna sinn í vanskelig þótt bæði rótarsérhljóðið og merkingin hafi hnikast til en tökuorð eru oft óstöðug í framburði og merkingu vegna þess að þau hafa ekki stuðning af öðrum skyldum orðum. Það er lítill framburðarmunur á a og æ í þessari stöðu og bæði merkingin 'erfitt' og 'varasamt' gæti oft átt við. Breytingarnar í vænskilegt eru því hvorki óvæntar né óskiljanlegar. Þetta orð þarf að komast í orðabækur.