Að slaufa – eða útskúfa, afskrifa, hunsa . . .

Á Facebook-síðu Karenar Kjartansdóttur var í gær umræða um sögnina slaufa og nafnorðið slaufun sem nýlega hafa verið tekin upp sem þýðing á cancel í ensku. Enska sögnin merkir yfirleitt 'hætta við' (cancel a game), 'fella niður' (cancel a performance) eða eitthvað slíkt, en hefur í seinni tíð einnig fengið merkinguna 'to completely reject and stop supporting someone, especially because they have said something that offends you', þ.e. 'að hafna einhverjum algerlega og hætta að styðja þau, einkum vegna þess að þau hafa sagt eitthvað sem móðgar þig'. Það er þessi síðasta merking – sem merkt er „informal“ í  Cambridge-orðabókinni og varð áberandi upp úr #MeToo-hreyfingunni 2017 – sem hefur verið þýdd með slaufa.

Sögnin slaufa er tökuorð, komin af sløjfe í dönsku sem aftur er komið úr schleifen í þýsku. Hún er merkt „óformlegt“ í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'hætta við (e-ð), sleppa (e-u)' sem rímar ágætlega við aðalmerkingar cancel í ensku – notkunardæmið er hann slaufaði tveimur prófum. Sögnin fellur ekki fullkomlega að íslensku hljóðkerfi (frekar en samhljóma nafnorð) vegna þess að í henni er borið fram óraddað f en ekki raddað v eins og venjulega milli sérhljóða (sbr. gaufa, daufur, laufið o.s.frv.). Sögnin virðist hafa komið inn í málið snemma á tuttugustu öld – elsta dæmi sem ég finn um hana er í Alþýðublaðinu 1921: „Það er annars skrítið, að slík nefnd sem þessi skuli ekki leggja það til, að slaufað verði konungdómnum.“

En ekki leið á löngu frá því að cancel fékk áðurnefnda nýmerkingu í ensku þar til var farið að nota sögnina slaufa yfir samsvarandi merkingu í íslensku. Í frétt á vef Ríkisútvarpsins 2020 segir: „henni hefur verið slaufað (e. cancelled) oftar en einu sinni“. Þetta sýnir að þýðingin slaufa er komin í notkun en enska samsvörunin innan sviga sýnir jafnframt að ástæða þykir til að skýra hvað við er átt. Þótt merkingarbreytingin í þessari nýju notkun sagnarinnar sé kannski ekki mikil felst umtalsverð breyting í því að andlag hennar er nú fólk í stað atburða eða hluta – talað er um að slaufa honum/henni í stað slaufa því/þessu. Einnig varð til nafnorðið slaufun sem ekki er að finna í neinum orðabókum og tengist eingöngu hinni nýju merkingu sagnarinnar.

Sögnin slaufa stýrir þágufalli á andlagi sínu – slaufa einhverjum. Þágufall helst venjulega þótt andlagið sé gert að frumlagi í þolmynd, og þannig er það líka oft með slaufa – „Frosta var slaufað í kjölfar viðtals Eddu Falak við fyrrverandi kærustu Frosta“ segir á mbl.is 2023, „Simmi spyr hvort samfélagið sé betra nú eftir að Sölva var slaufað“ segir í DV 2023. En einnig eru dæmi um nefnifall – „Hún er óhrædd við að tjá skoðanir sínar og hefur oft verið slaufuð“ segir á mbl.is 2022, „tíður gestur í Silfrinu hans Egils, en slaufaður af tveimur ástæðum“ segir í Fréttablaðinu 2021. Það má líta svo á að eingöngu sé um þolmynd að ræða þegar þágufallið helst, en sé nefnifall notað sýni það að slaufaður sé þar lýsingarorð eins og mörg dæmi eru um.

Svo má deila um hvort slaufa sé heppilegt orð um það sem um er að ræða og í umræðu voru nefndar ýmsar sagnir (og nafnorð leidd af þeim) sem nota mætti í staðinn, eins og útskúfa, útiloka, afneita, afskrifa o.fl. En þetta er viðkvæmt efni því að það tengist skoðun fólks á athæfinu – hvað felist í því og hversu alvarlegum augum það er litið. Sjálfum finnst mér sögnin hunsa sem skýrð er 'skeyta ekki um, líta framhjá (e-u/e-m)' í Íslenskri nútímamálsorðabók ná nokkuð vel þeirri merkingu sem ég legg í hugtakið. Sú sögn getur tekið bæði fólk og atburði eða hluti sem andlag. En líklega er slaufa orðin föst í þessu hlutverki og tilgangslaust – og svo sem ástæðulaust – að amast við henni eða reyna að finna eitthvað í staðinn.