Hvað ertu að fara (með)?
Í „Málspjalli“ var í gær spurt út í orð atvinnuvegaráðherra um auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi – „Ég skil ekki hvert þau eru að fara“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa vanist því að þegar spurt væri um skilning eða ætlun væri notað hvað en ekki hvert – hvað ertu að fara (með þessu)? Það er alveg rétt að notkun myndarinnar hvert í þessu sambandi, hvert ertu að fara?, vísar oftast til stefnu eða áfangastaðar frekar en skilnings eða ætlunar, og ég geri þann greinarmun í mínu máli. Það er þó algengt, a.m.k. í seinni tíð, að nota hvert einnig í fyrrnefndu merkingunni og merkingarmunurinn er svo sem ekki mikill þegar að er gáð – spurning um skilning eða ætlun vísar oftast til stefnu eða áfangastaðar líka, bara í óeiginlegri merkingu.
Í Pressunni 1994 segir: „En hvert ertu að fara með þessum bréfum þínum?“ Í Fjölni 1997 segir: „Hvert ertu að fara með þessu?“ Í Skírni 2000 segir: „En hvert ertu að fara með þessum spurningum?“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Hvert ertu að fara með þessari bók?“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Hvert ertu að fara með plötunni?“ Í Akureyri 2012 segir: „Hvert ertu að fara með bókinni?“ Í Kjarnanum 2014 segir: „hvert ertu að fara með það?“ (verkefnið). Þarna er í flestum tilvikum augljóst að verið er að spyrja um stefnu eða áfangastað, þótt í óeiginlegri merkingu sé. Sumum kann að finnast æskilegt að halda í greinarmun á hvað og hvert í þessu sambandi, en það er engin leið að segja að hvert ertu að fara? sé rangt þarna.
En þegar ég var að skoða þetta rakst ég á allmörg dæmi um orðasambandið hvað ertu að fara með? sem komu mér spánskt fyrir sjónir. Í Verðandi 1881 segir: „„Mjer getur aldrei þótt vænt um neinn mann, nema Jón, og fái jeg hann ekki, þá giftist jeg aldrei“. – „Hvað ertu að fara með telpa, heldurðu að manni þurfi að þykja svo fjarska vænt hvoru um annað, þó að maður giftist.““ Í Iðunni 1884 segir: „„Guði sje lof; nú erum við hólpnar“, mælti Ebba; „það er maður undir rúminu inni.“ – „Hvað ertu að fara með?““ Í Ísafold 1889 segir: „„Það er hann John Gaston og enginn annar!“ – „Ada ! Hvað ertu að fara með, barn?““ Í Draupni 1905 segir: „„Ef þessi ættartala er rétt á hlið Bjargar“, sagði séra Eiríkur. – „Rétt! Hvað ertu að fara með, maður?““
Það er ljóst að merkingin í hvað ertu að fara með? í þessum dæmum er 'hvað áttu við?', 'hvað meinarðu?'. Orðasambandið í þessari merkingu virðist hverfa að mestu úr málinu snemma á tuttugustu öld en dæmi finnast í vesturíslensku blöðunum langt fram eftir öldinni. Yngsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi frá því um 1950: „„Verður hún ekki áfram, þessi kalda þarna, hvað hún heitir, dóttir hans séra Helga?“ spurði hann lágt. – „Hallgrímur!“ sagði Sigga, aldeilis orðlaus af undrun. „Hvað ertu að fara með?““ Guðrún frá Lundi var fædd 1887 og var því á máltökuskeiði í lok nítjándu aldar og trúlegt er að yngra fólk hafi ekki tileinkað sér sambandið hvað ertu að fara með í þessari merkingu.
Styttri gerð sambandsins – nútímagerðin, án með – er nefnilega komin til þegar um aldamótin 1900. Í Austra 1899 segir: „„Ertu þá svo steinblindur að sjá ekki hvert hugur hans stefnir í kvöld.“ – „Hann Einar! Hvað ertu að fara.““ Í Þjóðólfi 1901 segir: „Reyndar veit eg, að margir munu þjóta upp til handa og fóta og segja: „Hvað ertu að fara maður, veiztu ekki að við erum einhver menntaðasta þjóð í heiminum.““ Í Þjóðhvelli 1907 segir: „Hvað ertu að fara maður – eg botna hreint ekkert í þessu sem þú ert að segja.“ Frá þessum tíma má reyndar einnig finna fáein dæmi um að hvað sé notað um stefnu eða áfangastað í bókstaflegri merkingu. Í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar 1907 segir t.d.: „„Hvað ertu að fara?“ – „Hingað.““
Í sambandinu hvað ertu að fara? skiljum við hvað sem atviksorð, eins og hvert í hvert ertu að fara?, enda tekur sögnin fara ekki með sér fallorð. En ég sé ekki betur en að í eldri gerðinni, hvað ertu að fara með?, sé óhjákvæmilegt að túlka hvað sem spurnarfornafn í þolfalli sem stjórnist af forsetningunni með – þetta merki sem sé 'með hvað ertu að fara?' og hvað vísi þá til þess sem sagt var. Þannig væri hvað ertu að fara með? alveg hliðstætt við t.d. hvað ertu að fara í? (= í hvað ertu að fara?) um föt. En vegna þess að forsetningin og fallorðið stóðu ekki saman hefur tilvísun fornafnsins hvað orðið óljós í huga málnotenda, forsetningin með hefur því fallið brott, og það hefur leitt til þess að hvað er nú skilið sem atviksorð í stað fornafns áður.
Vegna náinna tengsla hvert og hvað er ekki skrítið að mörkin milli umræddra sambanda hafi dofnað. Merkingin í hvað ertu að fara? hefur líka breyst dálítið – í eldri dæmunum virðist hún alltaf vera sú sama og í hvað ertu að fara með?, þ.e. 'hvað áttu við?', 'hvað meinarðu?', en er í seinni tíð iðulega fremur 'hvert stefnirðu?' – þar er vitanlega stutt á milli. Í Morgunblaðinu 1994 er listamaður spurður: „Hvað ertu að fara með þessu?“ Í DV 2000 segir: „Hvað ertu að fara með þessari bók?“ En skýringin á þeim mun sem oft er gerður í nútímamáli á hvað ertu að fara? og hvert ertu að fara? liggur sem sé í því að þessi sambönd eiga sér ólíkan uppruna – hvert hefur aldrei verið annað en atviksorð þarna en hvað var upphaflega fornafn.