Málefnalegar kröfur um íslenskukunnáttu

Í „Bítinu“ á Bylgjunni í morgun var viðtal við Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra um ýmis verkefni ráðuneytis hans. Fyrirsögn upptöku af viðtalinu á vef Vísis er „Ætlar að vinda ofan af dellunni á leigubílamarkaði“ en á vefnum birtist einnig frétt unnin upp úr viðtalinu með fyrirsögninni „Ráðherra vill að leigubílsstjórar tali íslensku“. Vissulega lagði ráðherrann áherslu á þetta en tæpast er þó hægt að segja að það hafi verið aðalatriði viðtalsins sem fjallaði að verulegu leyti um innviðauppbyggingu og nýtt frumvarp ráðherra um leigubifreiðaakstur, þar sem íslenskukunnátta er reyndar ekki nefnd. En væntanlega er fyrirsögnin valin vegna þess að hún vekur athygli á viðkvæmu máli sem vitað er að skiptar skoðanir eru um.

Vitanlega geta oft verið málefnalegar ástæður fyrir kröfum um íslenskukunnáttu í ýmiss konar afgreiðslu- og þjónustustörfum – þar á meðal leigubílaakstri þótt ég sjái svo sem ekki að þörf fyrir íslenskukunnáttu sé meiri þar en á ýmsum öðrum sviðum þar sem ekkert hefur verið minnst á tungumálakröfur. En það væri t.d. ómálefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til að gangast undir meirapróf vegna þess að það próf veitir réttindi til ýmiss konar annars aksturs en með farþega. Í Reglugerð um ökuskírteini nr. 830/211 segir hins vegar í 16. grein: „Verklegt próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni skal fara fram á íslensku.“ Það kann að vera að þessu hafi ekki verið framfylgt frekar en ýmsum öðrum reglum, en eðlilegt er að gera það.

Ráðherrann segir: „Ég óska engum þess að búa á Íslandi án þess að tala íslensku. […] Það er grundvallaratriði að tala tungumálið sem talað er í því ríki sem þú býrð í. […] Þú lendir alltaf úti á hliðarlínunni og ert ekki fullur þátttakandi í því samfélagi sem þú ert í.“ Undir þetta má sannarlega taka – það er mjög mikilvægt að sem flest af því fólki sem hér býr skilji og tali íslensku. Það er mikilvægt fyrir fólkið sjálft, fyrir Íslendinga, fyrir samfélagið, og fyrir íslenskuna. En eitt er að telja íslenskukunnáttu æskilega og mikilvæga og annað að gera um hana ófrávíkjanlegar kröfur, og það er grundvallaratriði að skortur á íslenskukunnáttu sé ekki notaður sem yfirskin til að bægja burt fólki sem þykir óæskilegt af einhverjum öðrum ástæðum.

Þetta er ekki sagt að ástæðulausu. Inn í umræður um kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra blandast nefnilega iðulega óskyld atriði – í viðtalinu við innviðaráðherra í morgun var t.d. vísað í fréttir um að kaffihúsi leigubílstjóra í eigu Isavia á Keflavíkurflugvelli hefði verið „breytt í bænahús“. Þegar Birgir Þórarinsson hugðist leggja fram frumvarp um íslenskukunnáttu leigubílstjóra í fyrra sagði Morgunblaðið frá fjölmörgum kvörtunum um erlenda leigubílstjóra: „Hafa þær lotið að því að margir hverjir rati ekki um svæðin sem þeir aka um, [og] gjaldtaka hafi verið óheyrileg.“ Vitanlega kemur þetta íslenskukunnáttu ekkert við. Það er ekkert að því að gera kröfur um íslenskukunnáttu, en þær mega ekki byggjast á ómálefnalegum ástæðum.