Að ráðska – ráðskun
Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvernig ætti að þýða nafnorðið manipulation á íslensku. Í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi er það þýtt 'stjórnun (einkum með óheiðarlegum brögðum eða baktjaldamakki)' og sögnin manipulate sem nafnorðið er leitt af er þar þýdd 'ráðskast með, hafa áhrif á (mann eða atburðarás) með kænskubrögðum'. Það væri vissulega gagnlegt að hafa íslensk orð sem samsvöruðu ensku orðunum en hins vegar er ekki hlaupið að því að benda á einhver tiltekin nafnorð og sögn sem henti til þess. Í umræðu komu þó fram ýmsar tillögur – launstjórn(un), innræting, þvingun, tilfinningastjórnun, skuggastjórnun, vélun, launfrekja o.fl. fyrir nafnorðið, blekkja, handlanga, klækjastýra, ráðskast með fyrir sögnina.
Mörg þessara orða eru villandi eða of almenns eðlis fyrir þá merkingu sem um er að ræða, og af þeim sem nefnd voru finnst mér einungis launstjórnun og ráðskast með koma til greina. Orðið launstjórnun hefur verið notað áður, í Morgni 1993: „Móðir Hildebrandts er kona sem iðkar launstjórnun, bruggar launráð og egnir til samsæra til að tryggja hagsmuni sína.“ Þetta er úr þýddri grein og út frá samhenginu ekki ólíklegt að launstjórnun sé þarna notað sem þýðing á manipulation. En þetta er eina dæmið sem ég hef fundið um orðið. Það er æskilegt að hægt sé að hafa samsvarandi nafnorð og sögn um manipulation og manipulate, og einfalt væri að mynda sögnina launstjórna – sem ég finn engin dæmi um – út frá nafnorðinu launstjórnun.
Sambandið ráðskast með er þekkt í málinu síðan í upphafi tuttugustu aldar þótt það hafi ekki orðið algengt fyrr en eftir miðja öldina og sérstaklega eftir 1970. Sögnin er langoftast höfð í miðmynd en germyndin ráðska (með eða í) þekkist þó einnig þótt hún sé sjaldgæf: „En nú voru þeir teknir að þreytast á að láta þá stóru ráðska með sig og kröfðust réttar síns í stjórn landsins“ segir t.d. í Vikunni 1970. Samsvarandi nafnorð, ráðskun, er enn sjaldgæfara en er þó til í málinu – „Í því tómarúmi skapast andlegt öryggisleysi, sem gerir einstaklinginn enn útsettari fyrir ráðskun af hálfu kerfisins“ segir t.d. í Læknanemanum 1969 og „Ráðskun stjórnmálaflokka með samtökin eru hættulegt víti sem varast verður“ segir í Stéttabaráttunni 1975.
Orðið launstjórnun er vissulega gagnsætt en mér finnst það samt ekki ná merkingunni í manipulation alveg nógu vel. Ég legg til að germyndin ráðska verði tekin upp sem þýðing á sögninni manipulate. Germyndin er til í málinu eins og áður segir, og kosturinn við að nota hana umfram hina venjulegu þolmynd er sá að vegna þess að hún er fæstum munntöm er hægt að gefa henni sérhæfðri og afmarkaðri merkingu en hún hefur í hinu almenna og algenga sambandi ráðskast með. Það ætti ekki heldur að vera neitt því til fyirstöðu að nota ráðskun sem samsvarandi nafnorð – það hefur ekki heldur fastmótaða merkingu í huga málnotenda og þau fáu dæmi sem finnast um það falla ágætlega að merkingu orðsins manipulation.