Tilheyring – tilheyrsla
Í dag var spurt í „Málspjalli“ um nafnorðið tilheyring sem fyrirspyrjandi hafði rekist á sem þýðingu á belonging á ensku. Í umræðum var bent á að þetta orð er gefið sem samheiti sagnarinnar tilheyra í orðasafninun „Menntunarfræði“ í Íðorðabankanum og skilgreint 'Sú tilfinning einstaklings að vera hluti af hópi og eiga samleið með honum'. Þetta orð virðist í fljótu bragði vera rétt myndað. Viðskeytinu -ing er mjög oft bætt við sagnir til að mynda nafnorð, svo sem breyta – breyting, byggja – bygging, greina – greining, skýra – skýring, þýða – þýðing o.m.fl. Viðskeytið -un er reyndar mun oftar notað í þessum tilgangi en það er hins vegar nær eingöngu bundið við þær sagnir sem enda á -aði í þátíð – sem tilheyra gerir ekki.
Það er samt eitthvað við orðið tilheyring sem truflar mig – hugsanlega bara ókunnugleiki, en svo gæti líka verið að merking sagnarinnar tilheyra skipti þarna máli. Sagnir sem -ing er bætt við til að mynda nafnorð lýsa yfirleitt einhverri athöfn og nafnorðin sem um er að ræða tákna yfirleitt verknað, það að gera eitthvað (bygging hússins tók langan tíma, þýðing bókarinnar reyndist snúin) en geta líka oft táknað afurð verknaðarins (þetta er glæsileg bygging, þýðingin er mjög vond) – stundum er þetta aðalmerking orðsins. En sögnin tilheyra lýsir ekki athöfn heldur ástandi. Hér má benda á að þótt til sé (einkum í samsetningum) nafnorðið hæfing af sögninni hæfa getur það ekki tengst ástandsmerkingunni 'vera viðeigandi, við hæfi'.
En það eru til fleiri leiðir til að mynda nafnorð af sögn. Í umræðu var stungið upp á orðinu tilheyrn, en þótt orðið heyrn sé vitanlega til finnst mér það of tengt sögninni heyra í aðalmerkingu sinni, 'nema hljóð með eyrunum', til að það henti í þessari samsetningu. Hins vegar er til orðið tilheyrsla sem kemur m.a. fyrir í Tímariti lögfræðinga 1952 þar sem segir: „Með orðinu tilheyrsla er við það átt, hver hafi eignarréttinn, beinan eða óbeinan, að verðmæti.“ Orðið kemur fyrir í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 sem samsvörun við tilhørsforhold en það er skýrt 'det at være knyttet til noget; det at være del af en gruppe' í Den Danske Ordbog, sem er nokkurn veginn samhljóða skýringunni á tilheyring í Íðorðabankanum.
Viðskeytið -sla gegnir svipuðu hlutverki og -ing og getur líka oft merkt bæði verknað og afurð verknaðarins – fræða – fræðsla, kenna – kennsla, vinna – vinnsla o.fl. – stundum vísar það þó aðeins til afurðarinnar, eins og reynsla og skýrsla. Það tengist svipuðum sögnum og -ing og nokkur dæmi eru um að bæði viðskeytin tengist sömu sögnum – stundum í sömu merkingu eins og hersla og herðing af herða, en oftar þó í mismunandi merkingu eins og eyðsla og eyðing af eyða, skýrsla og skýring af skýra. Ég hef ekki þá tilfinningu að nafnorð með -sla þurfi endilega að lýsa verknaði eða afurð verknaðar, og mér finnst því tilheyrsla mun betra orð en tilheyring. Vitanlega er -heyrsla líka til í málinu, í samsetningunum bænheyrsla og yfirheyrsla.
Hitt er svo annað mál, sem nefnt var í umræðu um þetta, að ekki er alltaf þörf á eða ástæða til að búa til íslenskt nafnorð til að samsvara tilteknu nafnorði í erlendu máli, oftast ensku – oft er líka hægt, og fer betur, að umorða textann. Við höfum sögnina tilheyra og oft er hægt að nota samband með henni – í staðinn fyrir „eignartilfinning þeirra og tilheyring eykst“ eins og stendur í nýlegri meistararitgerð mætti segja tilfinning þeirra fyrir eign og að tilheyra hóp eykst eða eitthvað slíkt. Þó er þess að gæta að tilheyring / tilheyrsla er fremur íðorð en hluti af almennu máli og þess vegna getur nákvæm samsvörun skipt meira máli en ella. En hvað sem þessu líður sýnir þetta að það er að ýmsu að hyggja þegar smíðuð eru ný íðorð.