Meinfýsi eða meinfýsni?

Í „Málvöndunarþættinum“ var verið að ræða orðið meinfýsni en málshefjandi taldi sig aðeins kannast við myndina meinfýsi – án n. Báðar myndirnar eru algengar og gefnar í Íslenskri nútímamálsorðabók, þar sem síðarnefnda myndin er skýrð 'það að vera meinfýsinn, illkvittni' og greinilega talin aðalmyndin því að sú fyrrnefnda er ekki skýrð sérstaklega heldur vísað á hina. Í Íslenskri orðabók eru orðin skýrð saman undir meinfýsi, meinfýsni. Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2019 segir: „Meinfýsi heitir eiginleiki. […]. Þyki manni orðið ekki lýsa manni fyllilega stendur annar ritháttur til boða: meinfýsni. Og það er eins og auka-n-ið geri það aðeins mergjaðra.“ Þetta bendir allt til þess að litið sé á meinfýsni sem afbrigði af meinfýsi.

Elsta dæmi um meinfýsi á tímarit.is er í Austra 1900: „En mér virtist herra Laupépins tillit eigi laust við meinfýsi.“ Elsta dæmi um meinfýsni er í Tákni tímanna 1919: „Á meðan þessu fer fram, horfa aðstoðarmenn óvinarins með meinfýsni á þá, sem þeir hafa leitt til vantrúar.“ Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er aðeins meinfýsi að finna, en meinfýsni er hins vegar í Viðbæti bókarinnar sem var gefinn út 1963. Myndin meinfýsi virðist því vera aðeins eldri þótt ekki sé hægt að fullyrða um það vegna þess hversu fá dæmin eru lengi framan af. Hvorug myndin er sérlega algeng en meinfýsi hefur lengst af verið heldur algengari þótt meinfýsni virðist hafa siglt fram úr á síðustu árum ef marka má tímarit.is og Risamálheildina.

Nafnorðið meinfýsi er augljóslega myndað með i-hljóðvarpi af lýsingarorðinu meinfús sem er reyndar nánast horfið úr nútímamáli – aðeins um 50 dæmi eru um það á tímarit.is og það finnst hvorki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Orðmyndun af þessu tagi er mjög algeng – við höfum t.d. nafnorðin lýsi og lýti af lýsingarorðunum ljós og ljótur, nafnorðið hýsi af nafnorðinu hús, o.s.frv. Í þessum orðum er ekkert n – það eru ekki til myndir eins og *lýsni, *lýtni o.s.frv. Nú er það auðvitað varla svo að þetta n troði sér inn í meinfýsi af einhverri tilviljun, „af því bara“, heldur hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Lykillinn að þessu er væntanlega lýsingarorðið meinfýsinn.

Það orð er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – elsta dæmi um það er í Vísi 1920: „Svipur hans varð þá bæði í senn, háðslegur og meinfýsinn.“ Orðið gæti verið myndað beint af meinfús með i-hljóðvarpi, eins og meinfýsi, en gegn því mælir það að meinfýsinn virðist hafa alveg sömu merkingu og meinfús og vandséð hvers vegna ástæða hefði þótt til að búa til nýtt lýsingarorð af lýsingarorði sömu merkingar. Orðið meinfús virðist alltaf hafa verið mjög sjaldgæft eins og áður segir og óvíst að margir málnotendur hafi þekkt það. Líklegra er því að lýsingarorðið meinfýsinn hafi verið myndað af nafnorðinu meinfýsi – slík orðmyndun liggur beint við. Myndunin er þá meinfús > meinfýsi > meinfýsinn frekar en meinfús > meinfýsinn.

Þetta skiptir þó í raun ekki máli – hver sem myndunarsaga lýsingarorðsins meinfýsinn er hlýtur það að vera forsenda fyrir nafnorðinu meinfýsni, með n-i. Af lýsingarorðum sem enda á -inn eru nefnilega oft leidd nafnorð sem enda á -ni, svo sem fyndinn fyndni,  glettinn glettni, heppinn heppni, hittinn hittni, (ást)leitinn ástleitni og mörg fleiri, þar sem n-ið í nafnorðinu er augljóslega ættað úr lýsingarorðinu. Sama gildir um meinfýsinn meinfýsni. Orðin meinfýsinn og meinfýsni eru álíka gömul í málinu ef marka má tímarit.is (þótt vissulega sé erfitt að draga ályktanir af því vegna dæmafæðar) og ekkert því til fyrirstöðu að málnotendur hafi myndað nafnorðið af lýsingarorðinu eftir mynstri sem var þeim vel kunnugt.

Það er því ljóst að meinfýsni er ekki eitthvert tilviljanakennt framburðar- og ritháttartilbrigði við meinfýsi, heldur eru orðin orðmyndunarlega ólík – annars vegar meinfús meinfýsi og hins vegar meinfús meinfýsi – meinfýsinn – meinfýsni (eða meinfús meinfýsinn meinfýsni). Sama máli gegnir væntanlega um tvímyndirnar vandfýsi og vandfýsni (sem er ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók en aðalmyndin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924) þótt tímalínan sé þar óljósari – elsta dæmi um vandfýsi er frá 1892, um vandfýsni frá 1856, um vandfýsinn frá 1874, en vandfús kemur nánast ekki fyrir (aðeins tvö dæmi frá 1934 og 1977). Báðar orðmyndunaraðferðirnar eru vitanlega góðar og gildar og ástæðulaust að gera upp á milli þeirra.