Að klára stúdentinn og stefna á lækninn

Í „Málspjalli“ var spurt hvers vegna fólk segðist vera að læra lækninn / kennarann / lögfræðinginn / hjúkkuna / smiðinn / píparann o.s.frv., og hversu gamalt þetta væri í málinu. Þótt ég þekki þetta orðalag vissulega er það ekki í mínu máli og virðist ekki vera gamalt – elstu dæmi sem ég finn um það eru rúmlega tuttugu ára gömul. Fáein dæmi frá 2003 og 2004 er að finna á samfélagsmiðlum en dæmi úr prentmiðlum eru litlu yngri. Í DV 2005 segir: „Hún lærði kennarann í fjarnámi á styttri tíma en eðlilegt þykir.“ Í DV 2005 segir: „Ég er að læra píparann.“ Í blaðinu 2006 segir: „það vakti enga undrun hjá fjölskyldunni þegar hún ákvað að læra smiðinn.“ Í Munin 2008 segir: „Er að læra lækninn og spila knattspyrnu í landi frelsisins.“

Ég hef rekist á dæmi um nokkur fleiri orð í þessu sambandi, einkum á samfélagsmiðlum – að læra prestinn / leikarann / lögguna / ljósuna. Aftur á móti kemur að læra lögfræðinginn sem nefnt var í upphaflegu spurningunni varla fyrir – aðeins tvö dæmi á samfélagsmiðlum. Ekki eru heldur dæmi um að læra *hagfræðinginn eða *viðskiptafræðinginn þótt mikill fjöldi leggi stund á þessar greinar. Ástæðan er líklega sú að umrætt samband virðist alltaf vísa til þess að mennta sig til ákveðins starfs og lögfræðingur, hagfræðingur og viðskiptafræðingur eru prófgráður en ekki starfsheiti. Það er t.d. talað um að læra prestinn en aldrei *að læra guðfræðinginn þótt ekkert nám sé til sem heiti *prestafræði eða eitthvað slíkt.

Annað samband sem einnig er notað í skyldri merkingu og er sennilega álíka gamalt er stefna á. Á vef Náttúrulækningafélags Íslands 2023 er spurt: „Menntun?“ og svarað „Útskrifast sem sjúkraliði í vor og stefni á kennarann eða iðjuþjálfann eftir það.“ Þarna er augljóslega vísað til tiltekins náms, en sama orðalag getur einnig vísað til starfsins sem námið veitir réttindi til. Í Eyjafréttum 2007 er spurt „Hvað stefnir þú á að verða í framtíðinni?“ og svarið er „Ég stefni á lækninn“. Það er hins vegar ekki gott að segja hvers vegna þessi sambönd koma upp, en líklegasta ástæðan er sú að þau eru einföld og lipur. Það er einfaldara að segja ég er að læra kennarann eða ég er að læra lækninn en ég er í kennaranámi eða ég er að læra til læknis.

Ekki er heldur ólíklegt að um sé að ræða áhrif frá orðalaginu stefna á stúdentinn í merkingunni 'stefna á stúdentspróf' og klára / taka stúdentinn í merkingunni 'ljúka stúdentsprófi'. Það er nokkru eldra, frá því um 1980. Í Helgarpóstinum 1980 segir: „Ég ætla alla vega að klára stúdentinn og reyna að halda í ballettinn á meðan.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég stefni á stúdentinn til að byrja með, en hvað verður eftir það er óráðið.“ Í Eyjafréttum 1985 segir: „Hugurinn stendur til ferðalaga, kynnast nýju fólki og löndum, taka stúdentinn og fara í auglýsingateiknun eftir það.“ Orðalagið verða stúdent í merkingunni 'ljúka stúdentsprófi' er auðvitað gamalt og ekkert undarlegt að farið sé að nota fleiri sagnir til að tákna sömu eða skylda merkingu.