Flugskeyti og loftskeyti
Í færslu í „Málspjalli“ í dag var gerð athugasemd við að talað væri um loftskeyti sem hernaðarvopn – „Rétta orðið er flugskeyti“. Það er vissulega rétt að á þessu tvennu hefur lengst af verið grundvallarmunur. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið loftskeyti skýrt 'skeyti sent með tækni sem byggist á útvarpsbylgjum' og hefur verið notað í þessari merkingu síðan í byrjun tuttugustu aldar – í Skírni 1902 segir: „Á hinu virðist enginn efi, að þar sem loftskeyti eru send milli fjarlægra stranda yfir haf, þá ná þau tilgangi sínum.“ Í elsta dæmi um orðið, í Heimskringlu 1898, er það hins vegar notað um eins konar flugvél með „rafmagnshreyfivél, sem ásamt vindmylnu.vængjum, skýtr henni gegnum loftið, hvert sem maðr vill“.
Orðið flugskeyti er aftur á móti skýrt 'fjarstýrð eldflaug sem getur borið vopn' í Íslenskri nútímamálsorðabók og þá merkingu hefur orðið venjulega haft þótt öðru máli gegni um elstu dæmi, eins og í Veðráttunni 1928 þar sem segir: „Vegna hinna innlendu flugferða voru fengnar aukaveðurfregnir frá 9 skeytastöðvum frá því snemma í júní til 8. september. Þessi flugskeyti voru ennfremur fengin frá 6 aukastöðvum.“ Í Morgunblaðinu 1929 segir: „í þær fregnir vantar yfirleitt upplýsingar um skygni, skýjahæð og sjávaröldu – sem alt er nauðsynlegt í flugskeytum.“ Í þessum dæmum merkir flugskeyti 'veðurlýsing (veðurskeyti) vegna flugs'. En í Vísi 1944 segir: „Mörg flugskeyti Þjóðverja voru skotin niður yfir Suður-Englandi í gær.“
Í elstu dæmum er merking orðsins loftskeyti sem sé nálægt því að vera 'flugskeyti' en merking orðsins flugskeyti er 'loftskeyti' (sent í ákveðnum tilgangi). En þetta eru undantekningar og orðin hafa haft þá merkingu sem lýst er í Íslenskri nútímamálsorðabók fram undir þetta. Elsta dæmi sem ég finn um merkingarbreytingu orðsins loftskeyti er í krossgátu í Morgunblaðinu 2000 þar sem ein skýringin er „Eldfimt loftskeyti notað í stríði“ og lausnin er „Tundurskeyti“. Í DV 2003 segir: „Búnaðurinn virkar þannig að sé loftskeyti skotið að flugvélinni getur flugmaðurinn skotið út tugum blysa.“ Í DV 2007 segir: „Loftskeytum rignir niður á mann.“ Í Fréttablaðinu 2008 segir: „Palestínumenn segja ísraelskt loftskeyti hafa lent á húsinu.“
Dæmum um að loftskeyti sé notað í þessari merkingu fer svo fjölgandi – hægt og sígandi fyrst, en fljótlega mjög ört og í fréttum frá síðustu tíu árum hefur orðið nær alltaf þessa merkingu, í hundruðum dæma. Í sjálfu sér er þessi merkingarbreyting vel skiljanleg – við tölum um loftárásir og loftvarnir og eðlilegt að tengja loftskeyti við það. Forsenda fyrir því að það gerist er þó að í raun og veru er ekki lengur þörf á orðinu í eldri merkingu – loftskeyti eru ekki send lengur, starf loftskeytamanna er nú úrelt og Félag loftskeytamanna hefur verið lagt niður. Eldri merkingin er því eingöngu notuð þegar talað er um liðna tíð en það er vissulega skiljanlegt að þeim sem ólust upp við hana hugnist ekki breytingin. Henni verður þó varla snúið við úr þessu.