Þetta var ekki þínslegt

Orðið þínslegt datt upp úr mér í morgun – þetta er orð sem ég þekki vel en nota sjaldan. Orðið er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en er flettiorð í Íslenskri orðabók í merkingunni 'sem hæfir þér, sæmir þér, sem er líkur þér' og einnig með neitandi forskeyti, óþínslegur – 'sem líkist þér ekki, sem er þér ekki samboðið'. Bæði orðin eru einnig í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Orðið er gamalt og kemur fyrir þegar í fornu máli – í Heiðarvíga sögu segir: „Bjóða þeim öllum heim til vistar, það væri þínslegt.“ Einnig eru til samsvarandi atviksorð, þínslega og óþínslega. Það síðarnefnda kemur fyrir í Gunnlaugs sögu Ormstungu – „Þetta er óþínslega mælt“. En þótt þessi orð séu gömul virðast þau ævinlega hafa verið mjög sjaldgæf.

Þannig hefur norræna fornmálsorðabókin, Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP), aðeins eitt annað dæmi um þínslegur en það sem nefnt var hér að framan. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er aðeins eitt dæmi um þínslegur, úr Gerplu Halldórs Laxness, en engin dæmi um hinar myndirnar (nema um óþínslegur úr orðabók). Á tímarit.is eru samtals aðeins tíu dæmi um einhverja þessara mynda, þau elstu frá 1923 en það yngsta í þýddri myndasögu í Fréttablaðinu 2017: „Með öðrum orðum, mjög ó-þínslegur.“ Í Risamálheildinni eru aðeins tvö dæmi um þessi orð, bæði af samfélagsmiðlum – annað af Bland.is 2008 en virðist vera úr eldri texta og hitt af Twitter 2014: „eitthvað svo þínslegt að hlægja bara með vitandi ekkert hahah!“

En ég fór að hugsa um hvað þetta er í raun skrítið orð. Fyrri liðurinn er augljóslega eignarfall af annarrar persónu fornafninu þú en það er ekki algengt að fornöfn séu fyrri liður samsetninga. En ekki nóg með það – milli samsetningarliðanna kemur s sem er auðvitað dæmigerð eignarfallsending. Það eru ýmis dæmi um að s sé notað sem tenging milli samsetningarliða þegar fyrri liður er kvenkynsorð sem endar á -i og er eins í öllum föllum eintölu þegar það stendur stakt, í orðum eins og keppnismaður, leikfimishús o.m.fl. Þar er s ekki venjuleg eignarfallsending en segja má að hlutverk þess sé að sýna að um eignarfallssamsetningu sé að ræða. Í þínslegur er því hins vegar í raun ofaukið vegna þess að þín er augljóslega eignarfall.

Reyndar er einnig til dæmi um orðið án s í sautjándu aldar handriti – í Bjarnar sögu Hítdælakappa segir: „Þorkell kvaðst ætla, að hann mundi standa á hleri „og er ekki þínlegt“ segir hann.“ Samsvarandi orð þar sem fyrri hlutinn er eignarfall af fornafni fyrstu persónu kemur einnig fyrir í fornu máli, í lausavísu eftir Úlf Uggason: „sék við miklu meini, / mínligt, flugu at gína“ og er skýrt 'som ligner, sömmer sig for „mig“' eða 'sem líkist eða sæmir mér' í Lexicon Poeticum. Önnur dæmi finnast ekki um það orð, hvorki að fornu né nýju. En þínslegur er gott dæmi um að þrátt fyrir að vera alla tíð mjög sjaldgæf geta orð lifað í málinu í margar aldir, jafnvel þúsund ár – og eru jafnvel enn notuð í óformlegu málsniði eins og dæmin sýna.