Er hægt að gista heima?

Í frétt Ríkisútvarpsins af gosinu á Sundhnjúksgígaröðinni í nótt sagði: „Ekki liggur fyrir hve margir gistu í Grindavík í nótt.“ Í „Málspjalli“ var spurt hvort hægt væri að nota sögnina gista um það þegar fólk dveldi heima hjá sér. Það er ekki óeðlileg spurning – gista er vissulega skylt nafnorðinu gestur og í Íslenskri orðsifjabók er sögnin skýrð 'vera um nætursakir (eða lengur) hjá e-m utan heimilis, vera gestur e-s' en í Íslenskri orðabók er hún skýrð 'vera um nætursakir, nátta sig' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'dvelja e-s staðar yfir nótt'. Í hvorugri bókinni er sem sé tekið fram að dvölin þurfi að vera utan heimilis þótt e.t.v. megi halda því fram að eðlilegt sé að lesa það út úr skýringunum. En gista á heimili sínu á sér samt langa hefð.

Í Tímanum 1942 segir: „Ef þetta hús verður byggt, verða í því […] einhver ítök fyrir þingmenn, sem búa í grennd við Reykjavík, gista heima á nóttum, en þurfa að hafa það sem kalla mætti dagheimili í bænum.“ Í Alþýðublaðinu 1955 segir: „Íslenzkir menn, sem vinna við flugvöllinn, skipta mörgum þúsundum. Meginhluti þeirra á heima í Reykjavík og sumir þeirra gista heima hvern dag.“ Í frétt um útihátíð í Viðey í Morgunblaðinu 1984 segir: „vegna þess hve hátíðarsvæðið er skammt frá borginni og samgöngur verða tíðar teljum við ekki ólíklegt að ýmsir muni gista heima og vera í Viðey á daginn.“ Í DV 1999 segir: „Nú er ég í þjálfun sem gengið hefur vel og er að verða það sjálfbjarga að ég get farið að gista heima hjá mér um helgar.“

Fjölmörg fleiri hliðstæð dæmi mætti tína til þar sem talað er um að gista heima. Eins og dæmin sýna er það venjulega þannig að fólkið sem gistir heima dvelur að verulegu leyti annars staðar, oft mikinn hluta sólarhringsins eða vikunnar, þannig að það er ekki sjálfgefið að gista heima – gistingin þar er í einhverjum skilningi óvænt, óviðbúin eða óregluleg. Í því tilviki sem um var spurt er ljóst að þetta á við. Flestir eða allir Grindvíkingar eiga sér samastað utan Grindavíkur þar sem þeir dveljast margir meira og minna enda þurfa þeir alltaf að vera undirbúnir að rýma bæinn. Gisting þeirra í Grindavík er því ekki regluleg og notkun sagnarinnar gista í umræddri frétt var þess vegna fullkomlega í samræmi við málhefð.