Heppilega tók ég eftir þessu

Í frétt á vefmiðli í gær rakst ég á setninguna „barnalæknir í sumarfríi sem heppilega átti leið hjá hlúði að honum“ og hrökk aðeins við vegna þess að mér fannst atviksorðið heppilega vera notað þarna á óvenjulegan hátt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'sem kemur sér vel' með notkunardæminu svo heppilega vildi til að læknir var nærstaddur sem er vitaskuld merkingarlega svipað dæminu í fréttinni, enda er það ekki merkingin sem truflar mig þarna heldur setningarstaðan – samkvæmt minni málkennd getur heppilega ekki staðið á þessum stað í setningu. Í hefðbundnu nútímamáli held ég að ævinlega sé hægt að setja atviksorðið vel í stað heppilega án þess að setningagerð raskist, en það er ekki hægt í tilvitnuðu dæmi.

Þegar að er gáð reynist þessi notkun heppilega ekki vera einsdæmi í umræddri frétt – allnokkur dæmi má finna um hana frá síðustu árum. Á Bland.is 2005 segir: „Höfðum heppilega sal sem við gátum fengið lánaðan.“ Í DV 2012 segir: „þrettán af eignarhaldsfélögunum fimmtán hafi heppilega verið stofnuð sama daginn.“ Í DV 2018 segir: „Hér er sögð saga konu sem hefur heppilega misst minnið kvöldið sem hún virðist hafa framið glæp.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Ég myndi segja að tískuáhugi minn hafi heppilega þróast í rétta átt undanfarin ár.“ Í Vísi 2020 segir: „hún náði í fjármálastjóra Samhjálpar sem hafði heppilega heyrt allt um vandræði Wei.“ Í engu þessara dæma væri hægt að setja vel í stað heppilega í hefðbundnu máli.

Það má líka finna töluvert af dæmum þar sem heppilega er notað í upphafi málsgreinar. Á Bland.is 2005 segir: „Heppilega er það samkomulag að við systkinin gefum ekki hvert öðru gjafir.“ Á fótbolti.net 2006 segir: „Heppilega þá fór eitt eintak af gögnum til enska knattspyrnusambandsins.“ Á Twitter 2014 segir: „Heppilega fór ég ekki í Versló.“ Í Morgunblaðinu 2014 segir: „Heppilega höfðum við betur.“ Á mbl.is 2015 segir: „Heppilega var læknir um borð.“ Í Viðskiptablaðinu 2016 segir: „Heppilega þá er þetta ykkar vandamál, ekki okkar.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Heppilega hefur ekki þurft að leita af fólki í skriðunum á Seyðisfirði.“ Í DV 2020 segir: „Heppilega hefur slíkt gengið eftir upp til hópa.“

Svona er ekki hægt að nota heppilega í hefðbundinni íslensku, en í hliðstæðum setningum á ensku væri aftur á móti eðlilegt að nota atviksorðið luckily og lítill vafi á því að þarna liggur ensk setningagerð að baki, þótt áðurnefnd dæmi séu í fæstum tilvikum þýðingar. En þótt enska lýsingarorðið lucky þýði 'heppinn' þýðir atviksorðið luckily ekki beinlínis 'heppilega', heldur 'sem betur fer' eða 'til allrar hamingju' og þau orðasambönd væri eðlilegt að nota í dæmunum hér að framan. Þarna er sem sé ekki bara verið að breyta íslenskri setningagerð, því að atviksorð þeirrar merkingar sem um ræðir getur ekki staðið á þessum stað í setningu í hefðbundnu máli, heldur líka breyta merkingu atviksorðsins heppilega úr '(sem kemur sér) vel' í 'sem betur fer'.

Elstu dæmin sem ég hef fundið um þessa notkun heppilega eru tuttugu ára gömul og af samfélagsmiðlum eins og hér hefur komið fram, en langflest dæmanna eru þó frá síðustu fimm árum, þar af mörg úr vef- og prentmiðlum. Það er því greinilegt að þessi notkun er að aukast hratt, og ekki lengur bundin við óformlegt málsnið samfélagsmiðla. Málnotendur dvelja löngum stundum í enskum menningarheimi og ekki undarlegt að þeir verði fyrir áhrifum frá enskri setningagerð og merkingu sem síast inn í íslensku án þess að fólk verði þess vart – þetta er bara eitt margra dæma um slíkt. Einstakar ábendingar eða leiðréttingar duga skammt til að hamla gegn þessari þróun – eina leiðin til að hægja á henni er að hvetja fólk til að lesa meira á íslensku.

En þótt þessi notkun heppilega sé án efa komin úr ensku á síðustu árum er hún samt ekki algjör nýjung í málinu. Í Stuttum siðalærdómi fyrir heldri manna börn frá 1799 segir: „heppilega hafði Jósep séð þetta fyrir fram.“ Í bréfi til Jóns Sigurðssonar frá 1837 segir: „Heppilega hefi eg meðtekið frá yðar góðu hendi afskrift af ýmsum merkilegum kvæðum.“ Í Nýjum félagsritum 1846 segir: „þá snerist blaðið heppilega við.“ Í Þúsund og einni nótt í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar frá miðri nítjándu öld segir: „Ferjumaður komst heppilega inn í sama fylgsnið.“ Ekki verður betur séð en þessi dæmi séu nokkurn veginn hliðstæð nútímamálsdæmunum hér að framan, en annað mál er hvort fólki finnst þau réttlæta áðurnefnda nútímanotkun heppilega.