Posted on Færðu inn athugasemd

Maðurinn hefur verið fundinn heill á húfi

Ég er alltaf að rekast á ný og ný dæmi um að ensk setningagerð sé að síast inn í málið. Reyndar þarf ekki alltaf að vera um nýjung að ræða þótt ég hafi ekki tekið eftir einhverju fyrr. Þessi áhrif einkennist nefnilega af því að orðin eru öll íslensk og vegna þess hversu mettuð við erum af ensku tökum við ekki alltaf eftir því að þau eru notuð á annan hátt en venja er að gera á íslensku – við erum farin að hugsa á ensku að einhverju leyti. Nýjasta dæmið sem ég hef séð af þessu tagi var í DV í gær: „Sun fjallar um málið og segir að Gascoigne hafi verið fundinn nánast meðvitundarlaus í svefnherbergi sínu í Poole á föstudagskvöld.“ En hafi verið fundinn er ekki hefðbundið orðalag í íslensku þótt í frétt the Sun segir „was found semi-conscious“,

Auðvitað er var fundinn rétt mynduð þolmynd af finna og notuð í ákveðnu samhengi, t.d. hann var fundinn sekur. En í dæmum eins og því sem hér um ræðir, þar sem verið er að segja frá atburði, er venja að nota miðmyndina finnast en ekki þolmyndina var fundinn – hefðbundið mál væri segir að Gascoigne hafi fundist nánast meðvitundarlaus. Sé hins vegar verið að lýsa ástandi fremur en segja frá atburði er venja að nota nútíðina er fundinn, þar sem fundinn er lýsingarorð en ekki sagnmynd, en ekki hjálparsögnina hafa. Í Viðskiptablaðinu 2019 segir: „Nýr leigjandi hefur verið fundinn að vélinni.“ Í hefðbundinni íslensku væri sagt nýr leigjandi er fundinn að vélinni. En í hvorugu tilvikinu er verið fundinn hefðbundin íslenska.

Ég hef fundið slæðing af dæmum um báðar þessar setningagerðir, en í sumum tilvikum gæti sambandið verið hvort heldur er lýsing á atburði eða ástandi. Í frétt af týndu veski í DV 2022 segir: „Svo virðist sem að eigandinn hafi verið fundinn.“ Þarna er hægt að líta á hafi verið fundinn sem lýsingu á fundi eigandans og þá væri eðlilegt að segja eigandinn hafi fundist, en einnig er hægt að líta á þetta sem lýsingu á núverandi ástandi og þá væri eðlilegt að segja eigandinn sé fundinn. Sama máli gegnir um frétt á vef Ríkisútvarpsins 2019: „Mannsins [svo] sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í morgun hefur verið fundinn heill á húfi.“ Sé þetta frásögn af fundinum væri sagt fannst – sé það lýsing á stöðu mála væri sagt er fundinn.

Þessi setningagerð virðist vera nýleg í málinu þótt útilokað sé að tímasetja upphaf hennar nákvæmlega, og varla vafi á enskum uppruna hennar. Hún er algengust í óformlegu málsniði, en reyndar finn ég dæmi um hana í breytingum frá 2016 á höfundalögum þar sem segir: „Með munaðarlausu verki er átt við verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk þar sem enginn rétthafi hefur verið fundinn þrátt fyrir ítarlega leit.“ Þarna væri venjuleg íslenska að segja enginn rétthafi hefur fundist en þessi texti á rætur í Evróputilskipun og gæti verið orðrétt yfirfærsla á has been found þótt ég hafi ekki getað staðfest það. En síðar í sömu grein er notuð miðmynd og sagt: „Ef rétthafi verks sem áður hefur ekki fundist gefur sig fram [...].“

Vissulega má segja að þetta sé lítilfjörleg breyting og þótt hún sé tilkomin fyrir ensk áhrif er þetta auðvitað íslenska. Orðin eru íslensk og setningagerðin íslensk – það er bara ekki venja að nota hana á þennan hátt. En eins og ég hef áður sagt hef ég ekki sérstakar áhyggjur af enskum áhrifum út af fyrir sig, heldur af því hvernig og hvers vegna málnotendur taka ómeðvitað upp enska setningagerð. Það stafar væntanlega annars vegar af því hversu mikil enska er í málumhverfi þeirra, og hins vegar af því að þeir lesa ekki nógu mikið af hefðbundinni íslensku til að málkerfi þeirra standist hið enska máláreiti. Við getum ekki losnað við enskuna úr málumhverfinu en við getum vel styrkt íslenskuna og það verðum við að gera með öllum ráðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.