Posted on Færðu inn athugasemd

Spánn spilar boltanum á milli sín

Sambandið á milli sín er mjög algengt og hefur verið lengi, með ýmsum sögnum – skipta á milli sín, deila á milli sín, kasta á milli sín, henda á milli sín, senda á milli sín, fleygja á milli sín, spila á milli sín o.fl. Sambandið er venjulega notað með fleirtölufrumlagi eða samsettu frumlagi og vísar til einhvers konar samskipta eða tengsla tveggja eða fleiri – „Krossfarendur fengu nú ógrynni herfangs og skiptu því á milli sín“ segir í Nýrri sumargjöf 1862; „Alt kvöldið köstuðu öldurnar oss á milli sín sem hnoða úti á rúmsjó“ segir í Fjallkonunni 1904; „Bandamenn senda friðartilboð Þjóðverja á milli sín“ segir í Fram 1916; „Gróttumaðurinn Pétur Már Harðarson og Leiknismaðurinn Kristján Páll Jónsson með boltann á milli sín“ segir í Morgunblaðinu 2010.

Í þessum dæmum er ljóst að á milli sín vísar til fleiri en eins – frumlagið er annaðhvort í fleirtölu (krossfarendur, öldurnar, Bandamenn) eða samsett (Gróttumaðurinn ... og Leiknismaðurinn ...). En í knattspyrnulýsingu í sjónvarpinu í gær heyrði ég sagt: „Spánn spilar boltanum á milli sín.“ Þarna er frumlagið, Spánn, í eintölu (og sögnin líka heyrðist mér, þótt hugsanlegt sé að þarna hafi verið sagt spila), en samt er notað sambandið á milli sín. Frá merkingarlegu sjónarmiði er þetta vitanlega skiljanlegt vegna þess að Spánn vísar til liðsins – leikmenn þess spila boltanum á milli sín. Ég hef ekki tekið eftir sambærilegum dæmum áður en við nánari athugun kom í ljós að það er hægt að finna slæðing af þeim á netinu frá síðustu tuttugu árum.

„Spánn kunna ekki að spila boltanum á milli sín“ segir á Twitter 2012. Á fótbolti.net 2007 segir: „bæði lið reyndu að spila boltanum á milli sín.“ Á mbl.is 2008 segir: „Liðið mun reyna að spila boltanum á milli sín með stuttum sendingum.“ Í Austurfrétt 2014 segir: „Eins og áður kom fram þá gekk Hetti lítið að spila boltanum á milli sín.“ Á mbl.is 2015 segir: „liðið spilaði boltanum á milli sín án þess að sækja eða verjast.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Við réðum ferðinni og leyfðum Chelsea ekki að spila boltanum á milli sín.“ Í DV 2018 segir: „Emery vildi fá lið sitt til að spila boltanum á milli sín.“ Á Vísi 2023 segir: „KR náði að leika boltanum á milli sín eftir innkast.“ Á 640.is 2025 segir: „Völsungsliðið hætti að spila boltanum á milli sín.“

Séu þessar setningar eingöngu metnar út frá forminu eru þær ótækar vegna þess að sambandið á milli sín hefur hvorki ­frumlag í fleirtölu né samsett frumlag til að vísa í. En allar setningarnar eru samt auðskildar og ekkert athugavert við þær merkingarlega – alltaf er augljóst að þótt frumlagið sé í eintölu vísar það til margra einstaklinga og þess vegna finnst höfundum setninganna eðlilegt að nota sambandið á milli sín. Það væri þröngsýni og misskilningur á eðli tungumálsins ef amast væri við þessum setningum á þeim forsendum að formlegt samræmi skorti. Reglur sem heimta formlegt samræmi undantekningarlaust eru mannanna verk – merkingarlegt samræmi hefur alltaf tíðkast í málinu að einhverju marki og er fullgild íslenska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.