Tökum ófullkominni íslensku fagnandi
Ég sá umræðu um það á Facebook að danskur fótboltamaður sem hefur spilað á Íslandi í meira en áratug hefði talað (lélega) ensku í sjónvarpsviðtali. Ýmsum fannst þetta ámælisvert, en í umræðum kom þó fram að hann hefði verið spurður á íslensku og skilið spurningarnar, þótt hann hefði kosið að svara á ensku. Það er vissulega umhugsunarvert að maður sem hefur verið hér árum saman og átt í miklum mállegum samskiptum við Íslendinga skuli ekki tala málið, en í stað þess að hneykslast er kannski ráð að velta fyrir sér hvers vegna þetta er svona. Líkleg ástæða var reyndar nefnd í umræðunum – hann „veit sem er að það verður bara gert grín að honum á TikTok og í klefanum ef hann reynir að tala íslensku í sjónvarpinu“.
Þetta kom meira að segja beinlínis fram í viðtali við sænskan fótboltamann sem hefur spilað á Íslandi undanfarin fjögur ár á mbl.is um daginn. Fyrirsögn viðtalsins var „Hlæja þegar fyrirliðinn talar íslensku“ og þegar hann er spurður „Ertu eitthvað að ræða við strákana á íslensku?“ er svarið: „Aðeins. Ég skil mun meira í íslensku heldur en ég tala. Strákarnir hlæja aðallega bara að mér þegar ég reyni.“ Þetta er því miður dæmigert fyrir viðbrögð okkar við ófullkominni íslensku – við hlæjum að henni og gerum grín að þeim sem tala hana. Vonandi er þetta oftast góðlátlegt grín og ekki illa meint, en það getur samt virkað særandi og meiðandi á þau sem fyrir því verða þrátt fyrir það – engum finnst gaman að láta gera grín að sér.
Eins og ég hef áður skrifað um vorum við svo lengi eintyngd þjóð að við vöndumst því ekki að heyra misgóða íslensku hjá útlendingum, og kunnum ekki að bregðast við henni. Á nítjándu öld og langt fram á þá tuttugustu voru hér nánast engir útlendingar nema fáeinir Danir – embættismenn, kaupmenn, apótekarar, bakarar – sem töluðu brogaða íslensku. Það þótti sjálfsagt að gera grín að málfari þeirra – þetta voru jú Danir, fulltrúar herraþjóðarinnar. En þrátt fyrir þetta sé gerbreytt, og fólki sem ekki á íslensku að móðurmáli hafi fjölgað gífurlega á síðustu áratugum, erum við enn furðu föst í þessu fari. Það þykir enn ekkert athugavert við að gera grín að erlendum hreim, röngum beygingum, skrítinni orðaröð, óheppilegu orðavali o.s.frv.
Þetta er vont – miklu verra en við áttum okkur á í fljótu bragði. Það er vont fyrir fólkið sem fyrir því verður og er að reyna að tala íslensku en er slegið út af laginu með brosi, glotti, hlátri og hvers kyns glósum. Það veldur því að fólk hikar við eða forðast að tala málið, sérstaklega á opinberum vettvangi eins og t.d. í sjónvarpsviðtölum – og fær þá yfir sig hneykslun fyrir að tala ekki íslensku. En þetta er líka og ekki síður vont fyrir íslenskuna og framtíð hennar. Ef íslenskan á að lifa og vera burðarás í samfélaginu þarf að gera þeim sem hingað koma kleift að læra hana – og skapa andrúmsloft sem hvetur þau til að læra hana. Það gerum við ekki með því að gera grín að tilraunum þeirra til að tala málið. Við eigum að taka ófullkominni íslensku fagnandi.
Leave a Reply