Bómull
Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var nýlega vitnað í auglýsingu þar sem segir „Baðskrúbbur úr lífrænum bómul“. Lýsingarorðsmyndin lífrænum sýnir greinilega að nafnorðið bómul er þarna haft í karlkyni. Þetta er ekki einsdæmi og ekki nýtt. Elsta ótvíræða dæmi sem ég finn um karlkynið er í Vikunni 1958: „Þegar bletturinn er þur, þá farið yfir hann með bómul, bleyttum í vatni.“ Í Vísi 1980 segir: „vita þau ekki að það er vetur og bómullinn er mjúkur og heldur vel að?“ Gísli Jónsson nefndi karlkynsbeyginguna nokkrum sinnum í þáttum sínum um „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu, t.d. 1986 þegar hann sagði: „í sjónvarpsfréttum 28. janúar mátti heyra þau undur, að orðið var beygt eins og karlkynsorðin heigull, djöfull, hörgull o.s.frv.“
Í Bæjarins besta 1998 segir: „Á íslensku er ýmist talað um baðmull eða bómull. Fyrri myndin er forn í málinu en hin seinni gripin miklu síðar blóðhrá úr dönsku – bomuld.“ En þetta er misskilningur – orðið bómull kom inn í málið þegar á sautjándu öld samkvæmt Íslenskri orðsifjabók, úr bomuld sem aftur er komið af lágþýska orðinu Bomwulle sem í háþýsku er Baumwolle – bókstaflega 'trjáull'. Á nítjándu öld var mynduð íslenska samsvörunin baðmull til að koma í staðinn fyrir bómull í anda málhreinsunarstefnu, en baðmur merkir 'tré' í fornu skáldamáli. Elsta dæmi um það í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og á tímarit.is er í Skírni 1846 þar sem talað er um „hinn háa toll á nýlenduvörum (svo sem baðm-ull, sikri, o.s.fr.).“
Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2015 segir: „Bómull er ekki alveg gagnsætt orð. Það á því til að skipta um kyn í beygingu: um „bómul“. Mér finnst langlíklegast að þessi skortur á gagnsæi sé skýringin á karlkynsbeygingu orðsins – málnotendur tengja bómull ekki við orðið ull enda er vissulega ekki um ull að ræða í venjulegri merkingu, 'hár sumra spendýra, einkum sauðfjár'. Það gildir reyndar líka um orð eins og steinull og stálull sem ekki hafa þó neina tilhneigingu til að fá karlkynsbeygingu, en munurinn stafar sennilega af því að málnotendur þekkja fyrra hluta þeirra orða, stein- og stál-, en bóm- hefur enga merkingu í huga þeirra. Ef tengingin við nafnorðið ull er ekki fyrir hendi er nærtækt að tengja bómull við karlkynsviðskeytið -ull.
Skortur á gagnsæi er væntanlega líka ástæðan fyrir því að þótt orðið haldi kvenkyni sínu er nefnifallið ekki alltaf bómull, heldur stundum bómul. Sú mynd getur vel staðist sem nefnifall kvenkynsorðs þótt kvenkynsorð sem enda á -ul séu vissulega ekki mörg. Í Morgunblaðinu 1921 segir: „Kvensokkar og Barnasokkar úr ull og bómul.“ Þarna gæti vissulega verið um karlkyn að ræða þótt þá yrði að gera ráð fyrir að þolfallsmyndin bómul væri líka höfð í þágufalli í stað myndarinnar *bómli sem búast mætti við, með sérhljóðsbrottfalli úr áherslulausu atkvæði, en slíkt er ekki einsdæmi eins og ég hef skrifað um. En í Alþýðublaðinu 1934 sýnir lýsingarorð ótvírætt að um kvenkyn er að ræða: „Sjúkradúkur, skolkönnur, hitapokar, hreinsuð bómul.“
Það má meira að segja finna dæmi um orðið í hvorugkyni. Í skáldsögunni Blandað í svartan dauðann eftir Steinar Sigurjónsson frá 1967 segir: „hún […] hrifsaði í sokkana og bómullið.“ En þetta er eina hvorugkynsdæmið sem ég veit um. Myndin bómul er hins vegar algeng í nútímamáli – hálft sautjánda hundrað dæma er um hana í Risamálheildinni. Mjög oft er útilokað að sjá hvort hún er höfð í karlkyni eða kvenkyni, en í ljósi þess að af myndum með greini eru ótvíræðar karlkynsmyndir rúmlega tvö hundruð en ótvíræðar kvenkynsmyndir aðeins tólf er trúlegt að megnið af dæmunum sé í karlkyni. Ótvíræð dæmi með greini um viðurkenndu kvenkynsmyndina bómull eru ekki nema rúmlega helmingi fleiri en um karlkynsmyndirnar.
Leave a Reply