Nokkur fá og fáeitt
Í grein frá 1915 um íslenskar mállýskur sem ég birti í „Málspjalli“ um daginn rakst ég á setninguna „Skulu hér gefnar nokkrar fáar bendingar“. Fleirtala óákveðna fornafnsins nokkur er yfirleitt ekki notað með fleirtölu lýsingarorðsins fár í nútímamáli, en mér datt í hug að athuga hvort þetta væri einsdæmi. Í ljós kom að þetta samband tíðkaðist nokkuð áður fyrr. Elsta dæmi sem ég fann er í Nýjum félagsritum 1850: „þá er ætlað til að leigurnar verði hafðar […] til að bæta kjör nokkurra fárra presta.“ Í Nýjum félagsritum 1852 segir: „Hún […] drepur einúngis nokkrar fáar kindur á sumum bæjum.“ Í Þjóðólfi 1875 segir: „Í þjóðþinginu var lítill flokkur, eða heldur nokkrir fáir menn.“ Í Skuld 1878 segir: „Vér höfum nokkur fá kvæði eftir Þorstein.“
Á tímarit.is eru alls yfir tvö hundruð dæmi um þetta samband, flest frá síðari hluta nítjándu aldar og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Um 1960 virðist það að mestu horfið úr málinu þótt því bregði fyrir stöku sinnum eftir það, t.d. í Morgunblaðinu 1995: „Mér er ljúft að minnast með nokkrum fáum orðum míns kæra bróður.“ Í Risamálheildinni eru aðeins um tuttugu dæmi um sambandið frá þessari öld. Það er enginn vafi á því að þetta samband er komið af nogle få í dönsku sem er notað á sama hátt. Í íslensku höfum við hins vegar orðið fáeinir til að nota í þessari merkingu. Það orð er mun eldra í málinu en sambandið nokkrir fáir, kemur fyrir þegar í fornu máli, og hefur nú að mestu útrýmt hinu danskættaða sambandi.
Orðið fáeinir er orðið til við samruna lýsingarorðsins fár og töluorðsins eða óákveðna fornafnsins einn. Það er oft greint sem óákveðið fornafn en eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eðlilegt að greina það sem lýsingarorð vegna þess að það hefur veika beygingu, t.d. þessir fáu menn. Í Beygingarlýsingunni og flestum orðabókum er orðið aðeins gefið upp í fleirtölu sem má teljast eðlilegt af merkingarlegum ástæðum þótt reyndar væri alveg hægt að hugsa sér að það væri notað í eintölu í ákveðnu samhengi, rétt eins og sumur og margur. Við segjum margur maðurinn, og því ekki *fáeinn maðurinn? Slík dæmi virðast þó ekki koma fyrir, en hins vegar má finna slæðing af dæmum um hvorugkynsmyndina fáeitt.
Í Stefni 1981 segir: „það er jafnvel talinn lúxus að tefla, veiða, spila borðtennis og handknattleik svo fáeitt sé nefnt.“ Í Skírni 1994 segir: „Svo litið sé á fáeitt það sem magnar hljóm kvæðisins.“ Í Morgunblaðinu 1994 segir: „Þó má nefna fáeitt.“ Í mbl.is 2019 segir: „Meðal þess sem fylgir með í kaupunum er aðgangur að […] líkamsrækt svo fáeitt sé nefnt.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2019 segir: „Þetta er bara fáeitt af mörgu sem ég gæti nefnt.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Auk þess er gufubað, leikjaherbergi og íþróttaaðstaða svo fáeitt sé nefnt.“ Í Risamálheildinni eru 25 dæmi um fáeitt, nær öll í sambandinu svo fáeitt sé nefnt þar sem venja er að hafa tvö orð – svo fátt eitt sé nefnt. En ég sé ekkert að því að nota þessa mynd og finnst hún hljóma alveg eðlilega.
Leave a Reply