Málfar

Hvað er fjaður?

Í „Málspjalli“ var áðan spurt hvers vegna fjaðurpenni héti ekki fjaðrapenni ­– það væri ekki til neitt sem héti *fjaður. Því er til að svara að myndin fjaðrapenni er vissulega til – um hana eru nokkur dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, það elsta frá 1887, og hátt í þrjú hundruð dæmi á tímarit.is. Orðið er líka flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Ritmálssafni eru einnig tvö dæmi um myndina fjaðrarpenni og átta á tímarit.is. Myndin fjaðurpenni er gefin í orðasafni um ritun og skriftartegundir í Íðorðabankanum en er hins vegar ekki flettiorð í helstu orðabókum og aðeins eitt dæmi er um hana í Ritmálssafninu en hátt á annað hundrað á tímarit.is, það elsta frá 1908.

Í fornu máli koma fyrir nokkur orð með fyrri liðinn fjaðr-, svo sem fjaðrhamr og fjaðrspjót. Þetta eru stofnsamsetningar – fyrri liðurinn fjaðr- er stofn orðsins fjöður sem við sjáum m.a. í eignarfallinu fjaðr-ar. En á 14.-15. öld breyttust hljóðskipunarreglur málsins þannig að r hætti að geta staðið á eftir samhljóði í enda orðs og skotið var inn u þar á milli – maðr varð maður, akr varð akur, veðr varð veður o.s.frv. Þetta sést í samsetningunni fjaðrhamr sem nefnd var hér á undan – hamr varð hamur, en þetta gerðist líka þar sem fyrri liður samsetts orðs endaði á r á eftir samhljóði, þannig að fjaðr- í dæmunum hér að framan varð fjaður og út komu orðin fjaðurhamur og fjaðurspjót. Sama ástæða er fyrir því að við segjum ekki *Akranesingur eins og ég hef skrifað um – orðið var í fornu máli Akrnesingr en varð Akurnesingur við u-innskot.

Orðið penni kemur vissulega fyrir í fornu máli þannig að þótt engar heimildir séu um myndina *fjaðrpenni er ekki óhugsandi að hún hafi verið til áður en u-innskotið varð, og lifað í málinu alla tíð þótt hún hafi ekki komist á bækur. Mér finnst samt miklu líklegra að myndin fjaðurpenni hafi verið búin til á seinni öldum, nítjándu öld eða byrjun þeirrar tuttugustu, með orð eins og fjaðurhamur og fjaðurspjót að fyrirmynd. Hugsanlegt er að myndin hafi komið upp sem liður í baráttunni gegn „órökréttu“ máli sem iðulega er rekin af meira kappi en forsjá – einhverjum kann að hafa þótt það „órökrétt“ að hafa fyrri lið orðsins í eignarfalli fleirtölu, fjaðrahamur, þar sem hver penni er vissulega aðeins gerður af einni fjöður. En þetta eru bara getgátur.

Reyndar eru einnig dæmi um að fyrri liður samsetninga af þessu tagi verði fjöður- – þótt orðið fjaðrstafr í fornu máli verði stundum fjaðurstafur á síðari öldum kemur það oftast fram sem fjöðurstafur þar sem myndin fjöður hefur verið skynjuð sem stofn. Á tímarit.is má líka finna tæp 20 dæmi um myndina fjöðurpenni, þau elstu frá 1914. En það er ljóst að fjaðurpenni er aðalmynd orðsins í nútímamáli þrátt fyrir að hún sé ekki gefin í helstu orðabókum eins og áður segir – í Risamálheildinni eru 113 dæmi um hana, en aðeins 21 um fjaðrapenni, og ekkert um fjaðrarpenni eða fjöðurpenni. Ekki er ljóst hvers vegna fjaðrapenni hefur orðið að víkja sem aðalmyndin – eina skýringin sem mér dettur í hug er áðurnefnt andóf gegn „órökréttu“ máli.