Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi af skógareldum á Nýfundnalandi var talað við íslenskan slökkviliðsmann sem sagði m.a.: „um kvöldið og þegar það dimmaði og í morgunsárið þá brann um þúsund hektarar“ – notaði sem sé þátíðina dimmaði í stað hinnar venjulegu þátíðar dimmdi. Það er eina myndin sem gefin er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og í uppskrift viðtalsins á vef Ríkisútvarpsins var þessu breytt þannig að þar stendur dimmdi. Ég hef aldrei áður rekist á myndina dimmaði, en þar sem mælandinn hefur búið erlendis í hátt í þrjátíu ár hélt ég kannski fyrst að þessa óvenjulegu beygingu mætti rekja til þess að hann væri aðeins farinn að ryðga í móðurmálinu. En annað kom í ljós þegar ég fór að kanna málið nánar.
Vissulega er þátíðin dimmaði og lýsingarhátturinn dimmað sjaldgæft, en þó ekki einsdæmi – á tímarit.is eru tvö dæmi um dimmað og tæp þrjátíu um dimmaði. Það elsta er í Austra 1898: „um kvöldið dimmaði yfir með þoku.“ Í Ljósvakanum 1924 segir: „Kvöldskuggarnir féllu nú yfir hana, og óðum dimmaði í herberginu hennar.“ Í Baldursbrá 1940 segir: „Það dimmaði – kveld var komið, og kólnaði.“ Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru sex dæmi um dimmaði, öll frá nítjándu öld, þ. á m. „Nú dimmaði og höfðu þeir orðið áttavilltir“ úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar, og tvö um dimmað, bæði úr verkum Halldórs Laxness – annað er „Það gat ekki dimmað meira á, minstakosti ekki um hávorið“ úr Innansveitarkroniku.
Í venjulegri beygingu er a í dimma nafnháttarending og kemur því aðeins fram í nafnhættinum en í þessum dæmum er sögnin hins vegar beygð eins og a sé hluti stofns og eigi því að haldast í öllum beygingarmyndum, eins og það gerir t.d. í kalla. Því má búast við að finna einnig dæmi um nútíðarmyndina dimmar (sbr. kallar) í stað dimmir í þriðju persónu eintölu – vegna merkingar sagnarinnar kemur hún varla fyrir í öðrum persónum. Slík dæmi eru til. Tvö eru í Ritmálssafni, það eldra úr sálmi frá sautjándu öld eignuðum séra Stefáni Ólafssyni í Vallanesi: „Dimmar í heimi, Drottinn minn.“ Fáein dæmi eru líka á tímarit.is, t.d. „Þegar dimmar af nótt mótlætisins“ í Sameiningunni 1886 og „Það dimmar í lofti“ í Aldamótum 1891.
En mun eldri dæmi má finna um þessa beygingu sagnarinnar dimma. Í seðlasafni Ordbog over det norrøne prosasprog er samtals tuttugu og eitt dæmi um sögnina – tíu þeirra eru í nafnhætti þar sem ekki sést hvort a er hluti stofns eða nafnháttarending, en í hinum öllum er a greinilega hluti stofns. Í Guðmundar sögu biskups, handriti frá miðri fjórtándu öld, segir: „sjá þau hvorki jakann né barnið, enda dimmaði þá af nótt.“ Í Ólafs sögu Tryggvasonar, handriti frá lokum fjórtándu aldar, segir: „En er nótt dimmaðist en dagur skemmdist.“ Í Mágus sögu jarls, handriti frá upphafi fimmtándu aldar, segir: „Nú ganga þeir þar til er dimmar“ (breytt í dimmir í útgáfu) Í Hávarðar sögu Ísfirðings, handriti frá sautjándu öld, segir: „Var þá mjög dimmað.“
Það er því ljóst að dimmaði er hin upphaflega þátíð sagnarinnar sem virðist hafa lifað í málinu alla tíð, allt frá fornmáli til nútímans – þar af góðu lífi a.m.k. fram til loka nítjándu aldar. Dæmi frá tuttugustu öld eru vissulega fá, en dreifast nokkuð jafnt á öldina þannig að varla er ástæða til að efast um að þetta séu í raun leifar af eldri beygingu frekar en tilviljanakennd frávik eða villur þótt vissulega sé hugsanlegt að sú sé raunin í einhverjum tilvikum. Nýleg dæmi má líka finna um þessa beygingu dimma – í Risamálheildinni er á annan tug dæma um hana, en í þeim flestum er reyndar um að ræða nýja persónulega notkun sagnarinnar: „Að auki er gott að geta dimmað þær“ á mbl.is 2014; „Einnig hvar við viljum geta dimmað lýsinguna“ í Mannlífi 2018.
Árið 1944 fékk svardálkurinn „Pósturinn“ í Vikunni spurninguna „Viltu segja mér, hvort sé réttara að segja: „Mikið hefir dimmað síðan áðan,“ eða „Mikið hefir dimmt síðan áðan“.“ Pósturinn svaraði: „Hið fyrra höfum við aldrei heyrt og þykir því ótrúlegt, að það geti verið rétt!“ En í ljósi þess að þetta er upphafleg beyging sagnarinnar sem virðist hafa lifað í málinu óslitið frá fornmáli finnst mér engin leið að segja annað en dimmaði sér rétt mál. Þrátt fyrir það var kannski eðlilegt að breyta því í dimmdi á vef Ríkisútvarpsins vegna þess að flestir lesendur hefðu væntanlega talið að um villu væri að ræða. En þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig gamlar beygingarmyndir geta lifað í málinu öldum saman við hlið nýrri mynda.