Í samráðsgátt stjórnvalda er nú að finna „Áform um frumvarp til laga um málefni innflytjenda“ þar sem segir: „Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, dags. 21. desember 2024, segir m.a. að sérstaklega verði hugað að íslenskri tungu og menningu til að varðveita og styrkja sjálfsmynd þjóðar. Mannréttindi og virðing fyrir fjölbreytileika verði leiðarstef og leitast verði við að skapa breiða sátt um þau málefni sem skipta þjóðina mestu. Þeim markmiðum verði náð m.a. með því að innflytjendur fái tækifæri til að læra íslensku og taka virkan þátt í samfélaginu.“ Þetta er vitaskuld mjög jákvætt og í takt við það sem hér hefur oft verið talið nauðsynlegt, en þó má ekki fagna of snemma. Í fylgigögnum segir nefnilega:
„Frumvarpið leiðir af sér að aukið hlutfall útgjalda ríkissjóðs í málaflokknum renni til íslenskukennslu, samfélagsfræðslu og vinnumarkaðsþjálfunar í stað félagsþjónustu áður. Þannig munu útgjöld Vinnumálastofnunar aukast á ýmsum sviðum, t.d. við kaup á íslenskukennslu [...] en þau útgjöld rúmast innan fluttra fjárheimilda samræmdrar móttöku.“ Þótt það hljómi vitanlega vel að „aukið hlutfall útgjalda ríkissjóðs í málaflokknum renni til íslenskukennslu“ fylgir böggull skammrifi – samkvæmt tillögunum mun sparnaður ríkissjóðs af breytingunum verða a.m.k. 370-430 milljónir á ári. Það gefur augaleið að hækkað hlutfall af lægri upphæð en áður þýðir ekki endilega meira fjármagn og gæti meira að segja þýtt lækkun.
Í umsögn Alþýðusambands Íslands er lýst miklum áhyggjum af áhrifum skerðingar fjárhagsaðstoðar við erlenda ríkisborgara. Það er ekki viðfangsefni „Málspjalls“ að taka afstöðu til þess, en hins vegar er það verulegt áhyggjuefni ef slík skerðing er gerð undir þeim formerkjum að verið sé að setja aukið fé í íslenskukennslu – sem er ekki einu sinni víst að verði raunin eins og áður segir. Íslenskan á ekki að vera og má ekki vera neins konar skiptimynt – það er nauðsynlegt að stórauka kennslu í íslensku sem öðru máli og til hennar verður að verja miklu meira fé en gert hefur verið, alveg óháð öðrum málum. Framsetningin í umræddum tillögum veitir því miður enga tryggingu fyrir því að svo verði gert.