Fyrir rúmum sjötíu árum, haustið 1954, flutti Sveinbjörn Sigurjónsson magister útvarpserindi sem nefndist „Íslenzk tunga í önnum dagsins“. Þetta erindi „fjallar um efni, sem öllum Íslendingum er hugstætt, en um leið gamalt og nýtt vandamál“ segir í Alþýðublaðinu þar sem erindið var prentað, enda segir blaðið að það hafi vakið „mikla athygli“ og blaðið hafi fengið „margar áskoranir um að koma því á framfæri við lesendur sína“. Eitt af því sem tekið er fyrir í erindinu eru „ambögur“, meðal þeirra hið sígilda viðfangsefni „eintöluorð“ svokölluð – orð sem sumum finnst að aðeins eigi að nota í eintölu en málnotendur hafa oft ríka tilhneigingu til að nota í fleirtölu. Um þetta tekur Sveinbjörn þrjú áhugaverð dæmi og segir:
„Stundum eru ambögur endurteknar svo oft, að úr verður málfarsbreyting, sem vonlítið er að berjast gegn. Vil ég í því sambandi minnast á 3 orð, sem algeng eru í frásögnum og tilkynningum íþróttamanna. Það eru orðin lið, keppni og árangur. Þessi orð eru í eðli sínu eintöluorð, en heildstæð eins og t.d. orðið fólk. Svo hefur þetta verið frá upphafi vega og þannig voru þau enn, er orðabók Sigfúsar Blöndals kom út 1923. En fyrir svo sem 2-3 áratugum tóku íþróttamenn [...] upp á því fyrir einhverja handvömm að nota umrædd orð í fleirtölu. Þetta er nú orðið svo algengt, að úr orðalista dagsins hef ég 3 dæmi, hvert úr sínu blaði, um orðið lið í ft.: Liðin, sem tóku þátt í keppninni – bæði liðin – hins vegar erfiðuðu leikmenn beggja liða.“
Sveinbjörn heldur áfram: „Hversu mjög sem orðalag þetta særir máltilfinningu okkar, sem komin erum yfir miðjan aldur, og hvernig sem skólarnir reyna að berjast gegn því, virðist það hafa náð slíkri festu í rituðu máli síðari ára, að orðabókarhöfundar næstu kynslóðar neyðist til að viðurkenna fleirtölu umræddra orða.“ Þarna reyndist hann sannspár – og þó ekki að öllu leyti. Fleirtölubeyging orðanna lið og keppni er gefin athugasemdalaust í Íslenskri orðabók, sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls þar sem árangur er hins vegar aðeins í eintölu. Þó eru hátt í tvö þúsund dæmi um fleirtölumyndir orðsins á tímarit.is, það elsta frá 1901, og í síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar er fleirtalan árangrar reyndar gefin, en þó innan sviga.
Þótt Sveinbjörn sé andvígur málbreytingum er hann raunsær að vissu marki – viðurkennir að séu „ambögur“ endurteknar nógu oft verði úr því málbreyting „sem vonlítið er að berjast gegn“. Þannig verða málbreytingar einmitt – hefjast sem frávik frá hefðbundnu máli en ef þær ná festu í málinu verður niðurstaðan á endanum „rétt mál“ – málbreytingar sem verður að viðurkenna, enda þótt þessar nýjungar særi máltilfinningu þeirra sem komin eru yfir miðjan aldur. Svona hefur þetta alltaf gengið – eldri kynslóðin er sífellt að amast við nýjungum í máli yngri kynslóða en gleymir, eða áttar sig ekki á, að hún var sjálf einu sinni yngri kynslóðin sem tók upp ýmsar nýjungar sem kynslóð foreldra hennar kallaði „ambögur“ og særði máltilfinningu hennar.
Hve mörg ykkar vissu til dæmis að það hefði verið talin „ambaga“ að tala um bæði liðin og mörg lið – og hverjum dettur í hug að það séu einhver málspjöll að því? Ég er orðinn sjötugur og hef lagt mig eftir að lesa skrif um málfar og málvöndun en aldrei rekist á það áður að amast sé við þessari fleirtölu. Hins vegar hef ég ótal sinnum séð og heyrt amast við því að talað sé um keppnir en ég efast um að fólk sem er fætt á síðustu fjörutíu árum kannist við það. Svona breytist málið – við ergjum okkur yfir breytingum sem við verðum vitni að en þær breytingar sem við höfum ekki hugmynd um að hafi orðið eru margfalt fleiri og trufla okkur ekkert. Íslenskan hefur lifað þær af – og mun líka lifa af þær sem nú eru í gangi. Það er annað sem ógnar málinu nú.