„Ég er gagntekinn, altekinn, heltekinn, tekinn í framan“ sungu Stuðmenn eftirminnilega í myndinni Með allt á hreinu fyrir meira en fjörutíu árum. Í innleggi í „Málspjalli“ í gær voru tvö þessara orða til umræðu – innleggshöfundur sagðist geta verið altekin „af góðri hugmynd eða tilfinningu t.d. gleði eða þakklæti“ en alls ekki geta verið heltekin „af gleði eða fögnuði“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru bæði orðin skýrð með því þriðja úr þessum hópi, 'gagntekinn', sem aftur er skýrt 'uppfullur af e-u'. Samkvæmt þessu eru orðin þrjú samheiti í nútímamáli. Í Íslenskri orðabók er lýsingarorðið eða lýsingarhátturinn heltekinn ekki uppflettiorð heldur fellt undir sögnina heltaka, en fyrsta skýring hennar er 'deyða, drepa' og önnur 'gagntaka'.
Fyrri hluti orðsins er væntanlega nafnorðið hel, 'hið kalda ríki sem menn fara til eftir dauðann' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Upphafleg merking sagnarinnar heltaka er því örugglega 'færa í ríki dauðra‘'og sú merking kemur glöggt fram í elstu dæmum. Í Ritum þess íslendska Lærdómslistafélags frá 1786 segir um tún: „ver þau frosti og hörkum, sem annars heltekur þau.“ Í Þjóðólfi 1871 segir: „fanst hann þá brátt heltekinn [...] og reyndist örendur.“ Í Heilbrigðistíðindum 1872 segir: „allmargir drykkjumenn fara á endanum úr krampa, er þannig heltekur allan líkamann, að lífið slokknar út af allt í einu.“ Í Lýð 1890 segir: „22. des. andaðist Bogi P. Pétursson [...] úr skæðri lungnabólgu, er heltók hann af vosi eptir læknisferðir.“
Þetta samræmist vitanlega skýringum sagnarinnar heltaka í Íslenskri orðabók – þau sem eru heltekin eru 'merkt dauðanum', en jafnframt er eðlilegt að líta svo á að þau séu gagntekin af því sem um er að ræða – kulda, krampa, vosi o.s.frv. – í þeim skilningi að það yfirtaki þau. Smátt og smátt hefur merking sagnarinnar heltaka (og lýsingarorðsins heltekinn) síðan þróast þannig að dauðamerkingin dofnar eða hverfur en merkingin 'gagntekinn' verður aðalatriðið eins og skýringar orðanna í Íslenskri nútímamálsorðabók sýna. Það þýðir samt ekki að heltekinn og gagntekinn séu alger samheiti og tilfinning áðurnefnds innleggshöfundar fyrir merkingarmun þeirra sé úr lausu lofti gripin. Þvert á móti – málnotendur gera almennt skýran mun á orðunum.
Merkingarmunur orðanna heltekinn og gagntekinn virðist felast í því að hið fyrrnefnda vísar til einhvers sem er sjúklegt eða fer yfir venjuleg mörk – verður þráhyggja. Það er hægt að vera heltekinn af ást eins og í Stuðmannalaginu – það eru um 80 dæmi um það samband á tímarit.is, og um 20 í Risamálheildinni. En þótt ástin sé í sjálfu sér góð og jákvæð getur hún samt verið eitruð og óheilbrigð, og það eru engin dæmi um heltekinn af hamingju, heltekinn af ánægju eða heltekinn af sælu, og aðeins eitt um heltekinn af gleði. Það er hægt að nota orðin jöfnum höndum í neikvæðu samhengi, með orðum eins og reiði, hatur, illska o.s.frv., en tengingin við hel er enn til staðar í huga málnotenda – við höfum tilfinningu fyrir því að heltekinn sé ekki jákvætt.