Posted on

Gerum bækur sýnilegar á heimilum

Í fyrrahaust var ég að skipta um húsnæði og skoðaði af því tilefni fjölda fasteignaauglýsinga. Smátt og smátt áttaði ég mig á því að á myndunum sem fylgdu þessum auglýsingum sáust yfirleitt hvorki bókahillur né bækur. Þá rifjaðist upp fyrir mér að áður en teknar voru myndir af húsinu okkar fyrir sölu fengum við leiðbeiningar um hvernig ætti að undirbúa myndatökuna. Þar var talað um að fjarlægja ýmislegt sem þótti ekki gera húsið söluvænlegra – reyndar ekki bókahillur enda hefði það verið ógerningur, en mig grunar samt að það sé gert í einhverjum tilvikum. Sé svo gæti það bent til þess að bækur séu ekki mikils metnar og þyki hvorki prýði né bera vott um menningarheimili heldur séu fremur vitnisburður um óreiðu eða eitthvað slíkt.

Nú þykist ég vita að sumar myndir úr nýjum íbúðum séu ekki ljósmyndir heldur teiknaðar með hjálp gervigreindar, en auðvitað væri einfalt að gefa gervigreindinni fyrirmæli um að teikna bókahillur með bókum þó ekki væri nema á einn veggstubb. Það er dapurlegt ef bækur hafa það orð á sér að ekki sé heppilegt að flagga þeim á myndum vegna þess að þær dragi úr söluvænleik íbúða. En hinn möguleikinn er samt enn áhyggjusamlegri því að hann er sá að þessi bókafæð á myndunum sé ekki uppstillt heldur lýsi raunverulegu ástandi – á mörgum heimilum séu einfaldlega ekki til neinar bækur. Það er alvarlegt mál, vegna þess að ýmsar rannsóknir sýna marktæk tengsl milli fjölda bóka á heimili og lestraráhuga og lestrargetu barna á heimilinu.

Ég fór að hugsa um þetta aftur vegna frétta um átak til að efla bókakost danskra grunnskóla. Haft er eftir stjórnanda Dönsku lestrarmiðstöðvarinnar (Nationalt videncenter for læsning) að „bækur geti aukið einbeitingu og hvatt börn til að lesa meira“ og „Mörg börn vilji frekar lesa hefðbundnar bækur vegna þess að þær veita þeim tækifæri til að vera í algjöru næði“. Það er gífurlega mikilvægt fyrir íslenskuna að efla áhuga barna og unglinga á bóklestri til að auka orðaforða, efla málskilning og styrkja málkennd. Þess vegna þurfum við átak í að gera bókum hærra undir höfði, bæði í skólum og á heimilum – fjölga bókum, hætta að fela þær á myndum, og gera það metnaðarmál að eiga og lesa bækur. Það ætti að skila sér í auknum bóklestri barna.