Posted on

Íslensk ráðstefna á ensku

Mér var bent á auglýsingu um ráðstefnu sem stendur til að halda í Hörpu í október og heitir „The Female Edit: Shifting the Focus on Women“. Á síðunni kemur fram að ráðstefnan verði haldin á ensku, þrátt fyrir að sjö af átta fyrirlesurum heiti íslenskum nöfnum. Aðstandendur ráðstefnunnar eru væntanlega Íslendingar en ég finn ekki að þeirra sé nokkurs staðar getið, hvorki í auglýsingunni, á síðu „The Female Edit“, né á Facebook-síðu ráðstefnunnar. Auglýsingin er vissulega bæði á íslensku og ensku en augljóst er að íslenska gerðin er (léleg) þýðing á þeirri ensku – þar stendur t.d. „Þetta er ekki bara önnur ráðstefna“ sem er óeðlileg íslenska en bein þýðing á „This is not just another conference“ sem er venjulegt orðalag á ensku.

Það kemur auðvitað á óvart að ráðstefna sem fer fram á Íslandi, hlýtur einkum að vera ætluð Íslendingum, og þar sem nær allir fyrirlesarar eru íslenskir, skuli fara fram á ensku. Á Facebook- síðu ráðstefnunnar hafa verið gerðar athugasemdir við þetta og skýringar aðstandenda eru áhugaverðar: „Við ákváðum að halda viðburðinn á ensku svo hann geti verið sem opnastur og aðgengilegur fyrir alla sem búa hér, sérstaklega þá sem ekki tala íslensku. […] Þar sem ekki allir fyrirlesarar eru íslenskir er enska líka besta leiðin til að tryggja að bæði fyrirlesarar og þátttakendur geti tekið virkan þátt. […] Flestir Íslendingar tala hins vegar ensku í dag, þannig að með því að hafa viðburðinn á ensku viljum við gera fræðsluna aðgengilega fyrir sem flesta.“

Nú veit ég vel að í háskólaumhverfinu er það algengt að ráðstefnur fari fram á ensku, enda er þar oftast töluvert um bæði fyrirlesara og áheyrendur sem ekki skilja íslensku. Sama máli gegnir um ýmsar ráðstefnur um sérhæfð efni í tækni og viðskiptum. En öfugt við þær ráðstefnur virðist þessi vera ætluð almenningi en ekki afmörkuðum markhópum. Í svörum við athugasemdum segja aðstandendur að markmiðið sé „að skapa vettvang þar sem konur geta fræðst meira um líkama sinn og heilsu án þess að tungumál sé hindrun“. Það er auðvitað góðra gjalda vert, en í athugasemdum var bent á að meginhluti innflytjenda á ekki ensku að móðurmáli og draga má í efa að að það fólk hafi almennt næga enskukunnáttu til að skilja flókin fræðileg orð og hugtök.

En það gildir ekki bara um innflytjendur. Þótt fullyrðingin „Flestir Íslendingar tala hins vegar ensku í dag“ sé rétt að vissu marki er enskukunnátta verulegs hluta almennings að miklu leyti bundin við hversdagslegt talmál en nær ekki til sérhæfðs orðaforða eins og hlýtur að verða notaður á umræddri ráðstefnu. Þess vegna verður einnig að draga í efa að ráðstefna á ensku gagnist íslenskum konum sérlega vel. Það er líka óhjákvæmilegt að benda á að sú réttlæting sem þarna er notuð fyrir enskunni – að með henni megi ná til allra – getur í raun átt við á öllum sviðum. Ég hef áhyggjur af því að farið verði að nota hana meira og meira þannig að enskan leggi undir sig fleiri og fleiri svið en íslenskan hörfi. Þá erum við virkilega á hættulegri braut.