Í „Málvöndunarþættinum“ var vakin athygli á orðinu lífshótandi sem málshefjandi hafði séð á skilti á heilsugæslustöð og spurði „hvað varð um hið alíslenska orð lífshættulegt?“. Það er auðvitað ljóst að lífshótandi er bein þýðing á life threatening í ensku en það eitt og sér er ekki nægileg ástæða til að amast við orðinu, ef það er þarft í málinu og eðlilega myndað. Þetta orð er ekki að finna í orðabókum en er þó ekki alveg nýtt – elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1990: „Þeim, sem verður fyrir þeirri ólukku að fá einhvern lífshótandi sjúkdóm.“ Alls eru 35 dæmi um orðið á tímarit.is, langflest úr Læknablaðinu og Læknanemanum. Í Risamálheildinni eru 86 dæmi, mörg úr Læknablaðinu en einnig úr héraðs- og landsréttardómum.
Ef að er gáð er orðið lífshótandi dálítið sérkennilega myndað og ekki í samræmi við venjulega notkun sagnarinnar hóta. Hún er skýrð 'setja ógnandi skilmála að e-u' í Íslenskri nútímamálsorðabók og getur tekið tvö þágufallsandlög, t.d. hóta henni brottrekstri, en einnig er hún oft notuð með bara öðru andlaginu sem vísar þá annaðhvort til þeirrar persónu sem er hótað (þau hótuðu henni) eða til þess verknaðar eða afleiðingar sem hótað er (þau hótuðu brottrekstri). En fyrri hluti samsetningarinnar, líf-, fellur vitanlega ekki að þessum hlutverkum andlaganna – það er ekki verið að hóta lífi, heldur miklu fremur hóta dauða. Samsetningin dauðahótandi væri vissulega ekki sérlega lipur en merkingarlega eðlilegri en lífshótandi.
Vissulega má segja – eins og ég hef oft gert – að merking samsettra orða sé ekki endilega summa eða fall af merkingu orðhlutanna og þurfi ekki að vera „rökrétt“ – orð hafi bara þá merkingu sem málnotendur kjósi að leggja í þau. En í þessu tilviki er til annað orð sem mér finnst mun heppilegra. Það er orðið lífsógnandi sem er bæði eldra og töluvert algengara – kemur fyrst fyrir í Morgunblaðinu 1974: „Mörg eysamfélög eiga nefnilega í baráttu við lífsógnandi brottflutning fólks.“ Alls eru 178 dæmi um þetta orð á tímarit.is og 343 í Risamálheildinni. Það má vissulega segja að lífsógnandi sjúkdómar ógni lífi þótt þeir hóti því ekki. En svo má auðvitað spyrja hvort einhver þörf sé á sérstöku orði – hvort lífshættulegir sjúkdómar segi ekki það sem segja þarf.