Í pistli í gær notaði ég orðið eða orðasambandið si svona sem er mér tamt í tali, en eftir á fór ég að hugsa að ég hefði líklega aldrei notað það í rituðu máli og vissi ekki hvernig ætti að skrifa það – eða hvort einhverjar reglur væru um það. Ég fór líka að velta fyrir mér hvað þetta si væri. Í Íslenskri orðsifjabók er þetta sagt frá 17. öld, haft í einu orði og gefnar myndirnar sisona og sisvona (og reyndar einnig sem-svona sem talið er vafasamt að sé upprunalegt) og sagt að si- sé „e.t.v. [...] einsk[onar] bendiorð, sbr. -si í þessi“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þetta haft í einu orði, sisona, og skýrt 'án sérstakrar ástæðu' en í Íslenskri orðsifjabók er skýringin 'einmitt, þannig'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru báðar þessar skýringar tilfærðar.
Í Íslensk-danskri orðabók er „= til svona“ sett á eftir uppflettimyndinni sisona, og undir sisona er í Íslenskri orðsifjabók vísað á ti-sona sem sagt er frá 19. öld, með víxlmyndinni til-sona, „sbr. víxlan -ti og -til í helsti, helst til“. Undir helsti kemur svo fram að tengingin við forsetninguna til sé ekki upphafleg heldur síðari alda þróun í íslensku – málnotendur hafa ekki skilið ti og tengt það við til. Orðið tisona er gefið í Íslensk-danskri orðabók í merkingunni 'netop paa denne Maade' og merkt „Skaft.“. Engin dæmi finnast um tisona en ti sona kemur fyrir í bréfi frá Jónasi Hallgrímssyni til Konráðs Gíslasonar 1841: „En mosatekjan mín [...] fór ti sona.“ Annað dæmi er úr ljóðabréfi Jónasar til Fjölnisfélaga sinna: „það kom ti sona yfir mig.“
Einhver nítjándu aldar dæmi má finna um bæði til sona og til svona – sem er vitanlega sama sambandið, aðeins með mismunandi stafsetningu. Í Norðlingi 1877 segir: „það var til sona fyrir mér, að eg kunni ekki að vita það fyrir.“ Í Þjóðólfi 1856 segir: Það er nú til svona með flest sem hann segir.“ Í kvæði eftir Grím Thomsen segir: „hefir huldukona / heillað mig til svona.“ Einstöku yngri dæmi má finna. Í Alþýðublaðinu 1952 segir: „Já, það fór nú til svona; og ekkert við því að gera.“ Í minningum Steinþórs Þórðarsonar á Hala frá 1970, Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð, segir: „Því læturðu til svona.“ Sennilega er sambandið alveg horfið úr málinu en erfitt er að leita af sér allan grun í textasöfnum – til og svona standa oft saman í öðru samhengi.
En aftur að si svona – eða sisvona, eða si sona, eða sisona. Vitanlega er sona bara framburðarstafsetning af svona og kannski eðlilegast að halda sig við að skrifa v – nema við viljum líta svo á að þetta orð – eða orðasamband – hafi slitið sig alveg frá upprunanum. Spurningin er þá hvort eigi að líta á þetta sem eitt orð eða tvö – sis(v)ona eða si s(v)ona. Ég held að áherslan á seinni hlutanum sé yfirleitt a.m.k. jafnsterk og á þeim fyrri, eða sterkari, sem bendir til þess að málnotendur skynji þetta sem tvö orð. Svo má benda á dæmi um að si komi ekki næst á undan svona, í kvæðinu „Ég labbaði inn á Laugaveg“ eftir Ingimund (Kristján Linnet): „Ég heilsaði henni rétt si svo sem svona“ (eða si sosum, eða sisosum).
Fjöldi dæma er um alla fjóra rithættina, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Á fyrrnefnda staðnum er si svona langalgengast, en sisona og si sona rúmlega hálfdrættingar á við það í tíðni – sisvona heldur sjaldgæfara. Elstu dæmin um þrjú tilbrigðanna eru frá því um miðja nítjándu öld en sisona heldur yngra, frá 1887. Í Risamálheildinni er sisvona algengast en si svona næst á eftir – myndin sisona sem er uppflettimynd í Íslenskri nútímamálsorðabók eins og áður segir er langt undan. Bæði sisona og sisvona er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls en orðið – eða sambandið – er ekki gefið í Íslenskri stafsetningarorðabók. En svo er líka fjöldi dæma um í í stað i – í öllum fjórum afbrigðunum. Þann rithátt er ekki að finna í neinum orðabókum.
Ritháttur með í er greinilega yngri – elsta dæmið er frá 1915. Ástæðan fyrir uppkomu hans er hugsanlega sú að málnotendur tengi þetta við atviksorðið sí, sbr. sí og æ, en si er ekki hægt að tengja við neitt. Á tímarit.is eru dæmi með i meira en þrisvar sinnum fleiri en dæmi með í, en í Risamálheildinni er hlutfall dæma um í á móti i um það bil fimm á móti sex. Það er því greinilegt að ritháttur með í sækir á, og sí svona er algengasti rithátturinn í Risamálheildinni – algengari en allir rithættir með i. Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir að sisona sé myndin sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók, hallast ég að því að skrifa þetta eins og ég gerði upphaflega, si svona – með i í si og v í svona með vísan til uppruna, og í tveimur orðum vegna áherslu.