Posted on

Þöggun

Orðið þöggun er skýrt 'það að þagga (e-ð) niður' og 'það að þaggað sé niður í e-m' í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi um það er í Skírni 1832: „í raun réttri varð uppreistinn þar eigi almennt framkvæmd. Þó tafði þöggun hennar mjög fyrir Rússum.“ Þarna vísar orðið ekki til tungumálsins, heldur merkir 'það að kveða niður'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið tilfært í þeirri merkingu, 'Neddysning', með vísun til þessa dæmis. Önnur dæmi eru ekki um orðið á tímarit.is fram til 1990 fyrir utan þrjú dæmi í krossgátum í Vikunni frá fimmta áratugnum þar sem það er notað sem skýring á uss. Auk þess eru örfá dæmi um samsetninguna niðurþöggun, það elsta í merkingunni 'kveða niður' en önnur í merkingunni 'þagga niður í'.

En um 1990 fór Helga Kress bókmenntafræðingur og síðar prófessor að nota orðið þöggun, og í upphafi líka stundum niðurþöggun, í sértækri merkingu eins og hún skýrir í bókinni Máttugar meyjar frá 1993:  „Hugtakið þöggun felur ekki í sér að hinn þaggaði hópur þegi, heldur að það sé eingöngu ríkjandi talsháttur sem heyrist, eða öllu heldur er hlustað á. Þessa þöggun þaggaða hópsins er því hægt að skilgreina sem ákveðið heyrnarleysi hjá ríkjandi hópnum, á sama hátt og líta má á ósýnileika þaggaða hópsins sem ákveðna blindu hjá ríkjandi hópnum. Ef þaggaði hópurinn vill gera sig skiljanlegan verður hann að gera það á því tungumáli sem ríkjandi hópurinn heyrir, í stað þess tungumáls sem hann hefði getað myndað og þróað sjálfstætt.“

Þessi notkun orðsins hefur orðið ofan á sem endurspeglast í því að í stað bókstaflegrar skýringar Íslenskrar orðabókar sem vitnað var til í upphafi er þöggun skýrð 'kerfisbundin aðferð til að koma í veg fyrir að fólk tjái skoðanir sínar' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í þeirri merkingu hefur notkun orðsins aukist gífurlega í hvers kyns pólitískri umræðu á undanförnum tveimur áratugum – frá því að vera rúm tuttugu dæmi á tímarit.is á síðasta áratug tuttugustu aldar upp í rúm þrettán hundruð dæmi á öðrum áratug þessarar aldar. Í Risamálheildinni eru meira en átta þúsund dæmi um orðið, öll frá þessari öld. Þetta er sannkallað tískuorð og má alveg halda því fram að það sé stundum notað af litlu tilefni og jafnvel orðið merkingarlítið vegna ofnotkunar.