Eins og í fyrra skoðaði ég fjárlagafrumvarp næsta árs sem lagt var fram í morgun til að leita að vísbendingum um fjárveitingar til að efla íslenskuna, ekki síst kennslu í íslensku sem öðru máli. Í skýrslu OECD um innflytjendur sem var birt fyrir rúmu ári kom fram að fjárveitingar á Íslandi til kennslu í þjóðtungunni eru ekki nema brot af því sem þær eru annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt kom fram að kunnátta innflytjenda í þjóðtungunni væri minni en í nokkru öðru landi OECD. Þessi skýrsla kom rétt áður en fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs var lagt fram og hafði því ekki áhrif á það, en þess hefði mátt vænta að einhverra breytinga sæi stað í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Vissulega eru breytingar á þessu sviði – en því miður í öfuga átt.
Þetta kemur skýrast fram í lið 22.20, „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“. Undir þeim lið sagði í fjárlögum síðasta árs: Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 250 m.kr. til eflingar íslenskukennslu fyrir útlendinga.“ En í nýja frumvarpinu segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 250 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður.“ Ekki kemur fram hver þessi tímabundnu verkefni séu en augljóst er að það er áðurnefnd aukning – liðurinn „Íslenskukennsla fyrir útlendinga“ lækkar úr 564,4 milljónum króna í 360,7 milljónir króna (hér þarf að hafa í huga verðlagsbreytingar). Þetta er auðvitað algerlega forkastanlegt. Í stað þess að gefa í og efla íslenskukennslu er fé til hennar skert stórlega.
Undir lið 29.70, „Málefni innflytjenda og flóttamanna“ segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 150 m.kr. Um er að ræða tímabundna fjárheimild vegna aðgerðaáætlunar um inngildingu innflytjenda og flóttamanna sem fellur nú niður.“ Þegar þessar 150 milljónir komu inn í fjárlögum þessa árs var það til að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun fyrri ríkisstjórnar um inngildingu innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag. Vitanlega gerist slíkt ekki á einu ári og þess vegna fráleitt að fjárveitingin haldist ekki áfram. Vissulega tók þessi aðgerðaáætlun til margra þátta og óvíst að mikið af því fé sem ætlað var til hennar hafi farið beinlínis í íslenskukennslu, en hvers kyns aðrar aðgerðir til inngildingar styrkja líka íslenskuna.
En vondu fréttirnar eru fleiri. Undir lið 18.30, „Menningarsjóðir“, segir: „Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjárheimild málaflokksins aukin um 950 m.kr. Af þeim verður 720 m.kr. varið í að efla menningarsjóði og standa þannig vörð um grasrót skapandi greina og störf innan hennar.“ Liðurinn „Miðstöð íslenskra bókmennta“ hækkar vissulega um 50 milljónir, en liðurinn „Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku“ lækkar um fjórar og hálfa milljón og „Bókasafnssjóður höfunda“ lækkar um hálfa aðra milljón – raunlækkun er vitanlega talsvert meiri. Fátt skiptir meira máli fyrir íslenskuna en öflug bókaútgáfa á íslensku, og til að bækur séu gefnar út þarf að skrifa þær. Lækkun á þessum liðum er atlaga að íslenskunni.
Einnig segir undir lið 18.30: „230 m.kr. verður varið til styrkingar málefna íslensku, barnamenningar og aukins aðgengis að menningu óháð búsetu og efnahag.“ Mér hefur satt að segja ekki tekist að finna þessar milljónir – liðurinn „Barnamenningarsjóður“ lækkar t.d. um 1200 þúsund. Gefum okkur samt að eitthvað af þessum milljónum skili sér til íslenskunnar, og einnig getur verið að einhvers staðar annars staðar í frumvarpinu leynist eitthvað sem kemur íslenskunni til góða. Það eru þó engar líkur á að það vinni upp þær skerðingar sem nefndar eru hér að framan. Í heildina má segja að fjárlagafrumvarpið sé gífurleg vonbrigði fyrir öll þau sem bera hag íslenskunnar fyrir brjósti og hafa áhyggjur af stöðu hennar og framtíð.