Í fyrirsögn á Vísi í morgun stóð „Upplifir að þau hafi verið lögð í gildru“ og í fréttinni sagði: „Íslenskur fjölskyldufaðir segir að Útlendingastofnun hafi lagt hann og eiginkonu hans í gildru með misvísandi ráðleggingum.“ Ég staldraði við orðalagið leggja í gildru en seinna í fréttinni segir reyndar „Hann segir að það hafi verið líkt og ætlunin hafi verið að plata þau, leiða þau í gildru“ – sem er hið venjulega orðalag. Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2020 segir: „Maður var sagður hafa verið „lagður í gildru“. Trúlega hefur hann verið leiddur í gildru (eins og á glapstigu t.d.). Þeir sem hafa fyrir því að leggja gildru fyrir mann ætlast eðlilega til einhvers á móti. Gildran hafði verið lögð fyrir manninn. Þá er lágmark að hann gangi í hana sjálfur.“
Úr því að ástæða þótti til að fjalla um þetta í „Málinu“ fyrir fimm árum er ljóst að dæmið úr Vísi hér að framan er ekki einsdæmi og ég finn fáein önnur á netinu, það elsta í DV 2005: „Saklausi kórdrengurinn hann Cristiano lagður í gildru.“ Á Bland.is 2005 segir: „þá getur þú líka prófað að leggja hann í gildru.“ Á Hugi.is 2006 segir: „þá myndi hann leiða þau á einhvern stað, […] þéttan gróður þar sem auðvelt væri að leggja þau í gildru.“ Á Bland.is 2007 segir: „Það er verið að leggja barnaníðinga í gildru á netinu.“ Á Twitter 2021 segir: „Var Eiður lagður í gildru af fólki sem vildi hann út?“ Í frétt á Vísi 2016 segir bæði „Lögreglan í Saugerties í New York ríki lagði gildru fyrir hana“ og „einn þeirra hafi verið sendur til að leggja hana í gildru“.
Í sambandinu leggja í gildru blandast sem sé saman tvö gömul og vel þekkt orðasambönd, leiða í gildru og leggja gildru fyrir. Það er í sjálfu sér skiljanlegt – sagnirnar leggja og leiða eru hljóðfræðilega svipaðar og auk þess gæti verið um að ræða áhrif frá sambandinu leggja í einelti sem segja má að sé merkingalega hliðstætt. En þótt ýmis dæmi séu um svipaða blöndun orðasambanda og hún sé oftast meinlítil er samt ástæða til að vekja athygli á henni og vinna gegn henni meðan þess er kostur. Í þessu tilviki virðist blöndunin hvorki vera gömul í málinu né algeng þannig að möguleiki ætti að vera að kveða hana niður. Það er alltaf æskilegt að halda sig við málhefð ef þess er kostur, nema ríkar ástæður séu til annars – sem er ekki í þessu tilviki.