Eitt af því sem grefur undan íslenskunni um þessar mundir er sívaxandi óþörf og ástæðulaus enskunotkun á ýmsum sviðum, svo sem í hvers kyns merkingum, auglýsingum, skiltum o.fl. Þetta var til umræðu á málræktarþingi í gær og er meðal þess sem tekið er fyrir í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskunnar árið 2025. Þessi óþarfa enska hefur kannski ekki svo mikil bein áhrif á tungumálið þótt erfitt sé að fullyrða nokkuð um það, en óbeinu áhrifin eru þeim mun meiri og alvarlegri. Það eru áhrifin sem þessi enskunotkun hefur á hugarfar okkar. Við hættum að kippa okkur upp við það þótt ýmislegt sem gæti verið á íslensku sé á ensku, hættum að taka eftir því, en það síast samt inn í okkur og ryður enskunni braut inn á önnur svið.
Óþörf enskunotkun er sérstaklega alvarleg hjá þeim sem ættu að standa vörð um íslenskuna. Í fyrstu grein Laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 segir „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi“, og í 8. grein laganna segir „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum […]“. Háskóli Íslands ætti að hafa sérstakar skyldur við íslenskuna og í málstefnu skólans segir líka: „Háskólanum ber því rík skylda til að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu […]. Talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu. Íslenska er því sjálfgefið tungumál í öllu starfi skólans og notuð nema sérstakar ástæður séu til annars.“
Þess vegna brá mér þegar ég fór að skoða dagskrá Menntakviku, sem er árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og verður haldin fyrstu helgi í október. Dagskráin er mjög metnaðarfull og þar er á fimmta tug málstofa um fjölbreytileg efni. Málstofurnar eru allar á íslensku nema þrjár – en samt sem áður er öll dagskrárumgjörðin á ensku. Þar eru orð eins og Program, Titles, Participants, Topics, Presentation types, Chair, submissions in this session o.fl. Nú er mér ljóst að þarna er verið að nota erlendan hugbúnað sem væntanlega er ekki í boði á íslensku. Slíkt er ekkert óeðlilegt ef um er að ræða alþjóðlega ráðstefnu, og einnig getur verið eðlilegt að nota þetta innanhúss sem vinnuumhverfi við gerð dagskrárinnar.
En þegar dagskráin er birt almenningi er þetta vitanlega óboðlegt. Ráðstefnan er öllum opin, fer að langmestu leyti fram á íslensku, langflestir fyrirlesarar eru íslenskir, og búast má við að nær allir ráðstefnugestir séu íslenskir eða skilji a.m.k. íslensku. Þess vegna er skýlaus krafa að dagskráin sé birt í íslensku umhverfi, enda þótt hún sé unnin í hugbúnaði á ensku – birting dagskrár á ensku getur ekki fallið undir klausuna „nema sérstakar ástæður séu til annars“ í málstefnu Háskólans. Mér dettur auðvitað ekki í hug að „einbeittur brotavilji“ liggi þarna að baki – þetta er dæmigert hugsunarleysi og skilningsleysi á að svona hlutir skipta máli. Ég hef skrifað Háskólanum og gert athugasemdir við þetta, en ekki fengið nein viðbrögð.