Í „Málspjalli“ vakti hópverji athygli á orðalagi í dapurlegri frétt Vísis af nauðungarflutningi erlendrar fjölskyldu úr landi, „Taimova þurfti að fara í keisaraskurð til að bera tvíburana“ og sagðist „vona að blaðamaðurinn hafi hlaupið á sig“ þar sem konur fæddu börn jafnvel þótt það væri með keisaraskurði. Þetta orðalag var einnig til umræðu í „Málvöndunarþættinum“ og er svo sem ekki undarlegt, því að það er vissulega mjög óvanalegt í nútímamáli að nota sögnina bera um konur. Við erum vön því hún sé eingöngu notuð þegar ær og kýr eignast afkvæmi, og þá tekur hún með sér andlag í þágufalli en ekki þolfalli eins og þarna – ærin bar tveimur lömbum, kýrin bar rauðum kálfi. En auk þess er andlaginu oft sleppt – kýrin bar í gær.
Þetta þýðir hins vegar ekki að orðalagið í fréttinni sé úr lausu lofti gripið – sögnin bera var nefnilega notuð um konur áður fyrr. Í Stokkhólms Hómilíubókinni frá um 1200 segir: „Óbyrjan bar Jóan.“ Í Norsku Hómilíubókinni frá fyrsta hluta þrettándu aldar segir: „Hún bar drottin vorn.“ Í Maríu sögu segir: „Þann mun hún bera í heim, er leysir alla frá svikum og syndum.“ Í Snorra-Eddu segir: „Hann báru að syni meyjar níu og allar systur“, „Þau áttu sonu átján og voru níu senn bornir“ og „Enn eru fleiri nornir, þær er koma til hvers barns, er borið er“. Sögnin bera var einnig notuð um ær og kýr í fornu máli eins og nú, en stjórnaði þá oftast þolfalli þótt þágufalli bregði fyrir – „síðan á 17. öld oft með afkvæmið í þgf.“ segir í Íslenskri orðabók.
Þótt sjaldgæft sé bregður því líka fyrir í nútímamáli að sögnin bera sé notuð um barnsfæðingar. Í Morgunblaðinu 1920 segir: „það gengur glæpi næst að bera börn í heiminn þar sem þannig er ástatt.“ Í Skírni 1957 segir: „Nína gat ekki borið fleiri börn í heiminn.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Til hvers er barn í heiminn borið, ef það þarf svo ungt að falla í valinn?“ Í Morgunblaðinu 1974 segir: „Hún hefur borið 11 börn í heiminn.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Ég bar þrjú börn í heiminn fyrir tímann.“ Á Bland.is 2006 segir: „Þú hefur borið 4 börn í heiminn.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „á allri þessari vinnusömu ævi gekk hún um á fötluðum fæti, bar átta börn í heiminn.“ „Borið er oss barn í nótt“ segir í nýlegri sálmaþýðingu.
Auk þessa má benda á að lýsingarhátturinn borinn merkir 'fæddur' í föstum orðasamböndum eins og borinn og barnfæddur og í heiminn borinn sem bæði eru mjög algeng. Nafnorðið burður sem er leitt af sögninni bera hefur líka merkinguna 'fæðing' í samböndum eins og barnsburður. Það má því renna ýmsum stoðum undir orðalagið í áðurnefndri frétt Vísis og hæpið að halda því fram að það sé rangt þótt vissulega sé ekki óeðlilegt að það komi mörgum spánskt fyrir sjónir. Hitt er annað mál að það má alveg velta því fyrir sér hvort heppilegt sé að nota orðalag sem búast má við að sé flestum lesendum framandi, enda þótt það styðjist við forna hefð. Í þessu tilviki dregur óvenjulegt orðalag athyglina kannski frá efni fréttarinnar.