Fyrir viku skrifaði ég um sambandið brotin enska sem er töluvert notað á seinustu árum og augljóslega komið beint úr ensku, broken English. Í umræðum í „Málspjalli“ var drepið á ýmis önnur sambönd þar sem sögnin brjóta er notuð á seinni árum en aðrar sagnir voru frekar notaðar áður fyrr – brotin hjörtu, brotin loforð, brotin sambönd, brotnar fjölskyldur o.fl. Sumt af þessu er reyndar nokkuð gamalt og óvíst að það megi allt rekja til erlendra áhrifa, en enginn vafi er á enskum áhrifum í sambandi sem ég rakst á í fyrirsögn á Vísi í dag: „Sjóðheitar skvísur í hvolpajóga brutu næstum Internetið.“ Sambandið break the Internet er komið úr ensku – varð til á tíunda áratugnum og vísaði upphaflega til þess að rjúfa tengingu einstaks tækis við netið.
Ekki er að sjá að sambandið hafi ratað inn í íslensku í þeirri merkingu. En upp úr 2010 var farið að nota sambandið í óeiginlegri merkingu um eitthvað sem orsakar gífurlega netumferð eða athugasemdaflæði á samfélagsmiðlum – og er oft til þess ætlað. Sambandið náði miklu flugi eftir að það var notað við mynd af Kim Kardashian á forsíðu tímaritsins Paper árið 2014 – „Það má eiginlega segja að raunveruleikastjarnan Kim Kardashian eigi frasann Break the internet, eða Brjótið internetið, eftir að hún sat fyrir á forsíðu sama tímarits, Paper, árið 2014“ segir í Vísi 2017. Það leið ekki á löngu uns farið var að nota íslenska gerð sambandsins – strax árið 2014 má finna fjölda dæma um hana í ýmsum miðlum, þar á meðal eftirfarandi:
Í Bleikt segir: „Löngu áður en Kim reyndi að brjóta Internetið með afturenda sínum var Jennifer búin að vera nakin á forsíðu tímarits.“ Í DV segir: „Nægir þar að nefna nýlegar myndir af Kim Kardashian sem áttu víst að brjóta internetið.“ Í mbl.is segir: „Fyrir skömmu reyndi afturendi Kim Kardashian að „brjóta internetið“.“ Á Twitter segir: „Auðvitað á konan sem braut internetið að verða manneskja ársins hjá Time.“ Í einu ofangreindra dæma, og í örfáum öðrum dæmum í Risamálheildinni, eru reyndar gæsalappir um sambandið, en langoftast er það notað án þess að nokkuð bendi til þess að höfundum finnist það sérkennilegt í íslensku samhengi. Alls er á annað hundrað dæma um það í Risamálheildinni, rúmur helmingur á samfélagsmiðlum.
Það er athyglisvert og umhugsunarvert hvernig margir íslenskir miðlar tóku enska sambandið algerlega hrátt upp þegar í stað, án þess að hugsa út í – eða hirða um – að því fer fjarri að enska sögnin break samsvari alltaf íslensku sögninni brjóta. Grunnmerkingin er vissulega sú sama en báðar sagnirnar hafa ýmsar aukamerkingar sem ekki eru þær sömu í málunum tveimur. Dæmum af þessu tagi, þar sem íslensk orð eru notuð eins og um væri að ræða ensk orð sem hafa svipaða merkingu, fer sífellt fjölgandi. Það er vont, vegna þess að það bendir til minnkandi kunnáttu í íslensku, vaxandi ónæmis fyrir áhrifum enskunnar, og dofnandi vitundar um sérstöðu og sérkenni tungumála – bæði íslensku og ensku. Reynum að draga úr slíkum áhrifum enskunnar.