Í framhaldi af athugasemdum sem ég gerði við frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár stofnaði ég fyrir viku undirskriftalista á Ísland.is þar sem skorað er „á ríkisstjórn og Alþingi að stórhækka framlög til kennslu í íslensku sem öðru máli í fjárlögum ársins 2026“. Ég vissi svo sem ekkert hverjar undirtektir þessi listi fengi en get ekki kvartað – nú eru komnar á fimmtánda hundrað undirskriftir og sagt hefur verið frá listanum í Vísi, á Bylgjunni og á mbl.is, ekki einu sinni heldur tvisvar. Það er gott, því að markmiðið með listanum er ekki bara að fá sem flestar undirskriftir heldur líka að vekja athygli á málinu og skapa þannig þrýsting á stjórnvöld í von um að þeim skiljist að þetta er mjög mikilvægt mál sem nýtur verulegs stuðnings í samfélaginu.
Þótt áskoruninni sé beint til stjórnvalda á hvatning til að styðja við kennslu í íslensku sem öðru máli ekki síður erindi til atvinnurekenda – fyrirtækja og stofnana sem eru með fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli í vinnu. Það er nauðsynlegt að fólk fái tækifæri til að stunda íslenskunám, sé hvatt til þess og því liðsinnt eftir því sem kostur er, svo sem með því að bjóða upp á íslenskunám á vinnutíma. Síðast en ekki síst á þessi hvatning erindi til okkar allra – við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að auðvelda fólki íslenskunám, nota íslensku í samskiptum við innflytjendur ef þess er nokkur kostur (án þess að sýna ókurteisi), taka tilraunum fólks til að tala íslensku vel og ýta undir þær. Þetta kostar ekki neitt – nema tillitssemi.
Mér finnst mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að málið snýst ekki bara um íslenskuna og framtíð hennar, heldur einnig og ekki síður um það í hvers konar samfélagi við viljum búa í framtíðinni – og búa börnum okkar. Viljum við búa í samfélagi þar sem íslenskan er burðarás og sameiningartákn, þar sem hún er samskiptamál á öllum sviðum og menningarmiðlari, sameign íbúanna – eða viljum við búa í samfélagi þar sem umtalsverður hluti íbúanna talar ekki íslensku, festist í láglaunastörfum og einangrast í afmörkuðum samfélögum, og tekur ekki þátt í samfélagslegri umræðu, kosningum eða neins konar félags- og menningarstarfi? Ég vonast til og geri ráð fyrir að fæstum hugnist síðarnefndi kosturinn – en þá þurfum við að sýna það í verki.
Ég hef iðulega verið sakaður um að hrópa „úlfur, úlfur“, mála skrattann á vegginn og hafa uppi hræðsluáróður, dómsdagsspár og annað þaðan af verra þegar ég bendi á þá leið sem mér sýnist íslenskan og íslenskt samfélag vera á. Sannarlega vonast ég til að ég hafi rangt fyrir mér og íslenskan standi þetta af sér eins og hún hefur gert hingað til, þrátt fyrir að utanaðkomandi þrýstingur á hana sé meiri en nokkru sinni fyrr, og annars eðlis sem gerir erfiðara að standast hann. En ekki veldur sá er varar, og ég ætla ekki að verða sá sem taldi sig sjá hættumerki en lét vera að benda á þau. Jafnvel þótt hættan reynist minni en mér sýnist og allt fari á besta veg getur aldrei verið nema til góðs að leggja meira rækt við íslenskuna.
En það hefur alltof lítið verið gert til að styrkja íslenskuna og gera henni kleift að standast þennan þrýsting. Ég reyni yfirleitt að vera bjartsýnn og hef iðulega talað fyrir jákvæðri umræðu um íslenskuna en óraunsæ bjartsýni getur samt komið manni í koll, og ég hef raunverulegar og einlægar áhyggjur af framtíð íslenskunnar. Hún er vitanlega ekki að fara að deyja á næstunni, en eftir því sem vægi ensku sem samskiptamáls eykst veikist íslenskan og verður undir – og hverfur að lokum. Góðu fréttirnar eru samt þær að þetta þarf ekkert að fara þannig. Við getum alveg snúið þróuninni við, eflt íslenskuna og gert hana að þeirri sameign sem hún þarf að vera. Takist að skapa um það samstöðu stjórnvalda, atvinnulífs og almennings er ástæða til bjartsýni.