Ég hef undanfarið skrifað marga pistla um mikilvægi þess að auka og bæta kennslu í íslensku sem öðru máli og auðvelda innflytjendum þannig að taka fullan þátt í samfélaginu og nýta kunnáttu sína og þekkingu. Stundum finnst mér þetta samt býsna tilgangslaus barátta þegar ég sé hvernig margir Íslendingar gefa skít í móðurmálið og nota ensku þess í stað, algerlega að ástæðulausu. Dæmum um þetta fer sífellt fjölgandi og eitt þeirra verstu sem ég hef séð rakst ég á áðan eftir að hafa séð frétt um keppnina „Ungfrú Ísland Teen“ sem verður haldin í Reykjavík eftir hálfan mánuð. Mér fannst heitið dálítið sérkennileg og hallærisleg blanda af íslensku og ensku og fór að kynna mér málið nánar. Þá kom í ljós að enskan var ekki bara í heiti keppninnar.
Í frétt í Vísi frá því í vor segir: „Ungfrú Ísland hefur kynnt nýtt vörumerki keppninnar, Ungfrú Ísland Teen, sem er keppni ætluð stúlkum á aldrinum 16 til 19 ára.“ Það liggur beint við að ætla að um sé að ræða íslenskar stúlkur, en þegar ég fór að skoða heimasíðu keppninnar kom í ljós að hún var eingöngu á ensku. Þar er keppnin kynnt svo: „Ungfrú Ísland TEEN is a transformative program designed to inspire, support, and empower teen girls across Iceland.“ Síðan fylgir langur texti, allur á ensku, þar sem m.a. segir: „Ungfrú Ísland TEEN is designed for girls aged 16 to 19 years old. The program is specifically tailored to meet the needs of teenage girls, offering guidance and empowerment during this crucial period in their lives.“
Þótt textinn sé á ensku er ljóst að honum er beint til Íslendinga, ekki síst ungra stúlkna – á síðunni er t.d. hlekkur á skráningarblað með fjölda spurninga sem allar eru á íslensku. Á síðunni er einnig listi yfir „Team“ og það eru nánast allt Íslendingar. Það er því hvorki hægt að skýra enskuna með því að aðstandendur kunni ekki íslensku né með því að verið sé að höfða til fólks sem ekki kann íslensku. Auðvitað kann að vera að aðstandendum keppninnar þyki ástæða til að kynna hana á erlendum vettvangi en það er engin afsökun fyrir því að hafa síðuna eingöngu á ensku. Sama gildir um aðalkeppnina, „Ungfrú Ísland“ – allar upplýsingar um hana á síðunni eru eingöngu á ensku, en umsóknareyðublað um þátttöku er hins vegar á íslensku.
Þetta er óvenju skýrt dæmi um undirlægjuhátt gagnvart ensku sem er ekki bara ástæðulaus og óþarfur – hann er líka beinlínis skaðlegur vegna þess að þarna er verið að höfða til ungs fólks og rannsóknir sýna að viðhorf ungu kynslóðarinnar til móðurmálsins skiptir sköpum fyrir framtíð þess. Þegar enska er notuð á þennan hátt til að höfða til ungs fólks er verið að senda þau skilaboð að íslenskan sé hallærisleg, hún eigi ekki við í heimi unga fólksins, í heimi framtíðarinnar. Það er sannarlega ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til tungunnar. Mér dettur ekki í hug að það sé með ráðum gert hjá aðstandendum keppninnar að vinna svona gegn íslenskunni, en þetta er hugsunarleysi sem við megum ekki láta viðgangast athugasemdalaust.