Í „Málspjalli“ var spurt um merkingu setningarinnar „Hún tók báðum höndum púðurkvasta, deif í duft í buðki“ sem fyrirspyrjandi hafði séð í bókinni Tvílýsi eftir Thor Vilhjálmsson. Fyrir utan orðin púðurkvasti og buðkur sem bæði eru sjaldgæf kemur þarna fyrir orðmyndin deif sem búast má við að komi mörgum spánskt fyrir sjónir. Þó er hægt að fletta henni upp á Málið.is þar sem fram kemur að hún sé „beygingarmynd af dífa“ sem er „Óviðurkennt afbrigði af veiku sögninni dýfa“ og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er bent á að hún „finnst hvorki í Málfarsbanka né Íslenskri stafsetningarorðabók“ – Gísli Jónsson segir líka í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986: „Ég amast við sterku beygingunni dífa, deif, difum, difið.“
Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2002 segir Sveinn Sigurðsson: „Fyrir kemur, að veika sögnin dýfa er höfð sterk og þá skrifað eða sagt „deif“ en ekki „dýfði“ í þátíð og umsjónarmaður hefur það fyrir satt, að það sé eina dæmið um, að sögn sé færð úr veikri beygingu og yfir í sterka.“ Það er þó ekki rétt. Í grein í Orði og tungu 2016 sýnir Margrét Jónsdóttir fram á að sögnin kvíða sem er yfirleitt höfð sterk í nútímamáli (nema í nútíð eintölu) var veik í fornu máli. Hún nefnir einnig fleiri sagnir sem áður voru veikar en hafa í nútímamáli einhver einkenni sterkrar beygingar, einkum dvína sem oft er dvín í nútíð eintölu í stað veiku myndarinnar dvínar, einkum í skáldskap – „Kveð eg hátt uns dagur dvín“ kvað Örn Arnarson.
Þær veiku sagnir sem hér hefur verið nefnt að sýni tilhneigingu til að verða sterkar, dýfa, kvíða og dvína, eiga það sameiginlegt að hafa í í stofni – dýfa er vissulega með ý en það hefur í mörg hundruð ár staðið fyrir sama hljóð og í. Sagnir sem beygjast eins og bíta, hafa hljóðskiptin í – ei – i (bíta – beit – bitum, svokölluð fyrsta hljóðskiptaröð) eru stærsti og reglulegasti hópur sterkra sagna og beygingarmynstur þeirra er svo sterkt í huga málnotenda að þrátt fyrir að sterkar sagnir séu yfirleitt lokaður hópur, í þeim skilningi að engar nýjar sterkar sagnir komi inn í málið, megnar það stundum að draga til sín veikar sagnir sem gætu hljóðafars síns vegna fallið undir þetta mynstur, þ.e. hafa í í stofni, og er eina mynstur sterkra sagna sem gerir það.
Árni Böðvarsson segir í þættinum „Íslenzk tunga“ í Þjóðviljanum 1961: „Til eru dæmi þess að sagnir sem beygðust veikt í fornu máli hafi fengið sterka beygingu í nútímamáli, og er svo háttað m.a. um sögnina að dýfa. Hún er stundum beygð sterkt: deif – difum – difið. Það stríðir þó móti uppruna og reglum tungunnar, þar sem hér er um að ræða ý, en eins og kunnugt er getur það aldrei komið fyrir í orðum með hljóðskiptinu í–ei. Sögnin hefur því fengið þessa sterku beygingu eftir að ý-ið var horfið sem sérstakt hljóð í málinu og fallið saman við í.“ Í athugasemd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Í Ritmálssafni Orðabókarinnar eru elstu dæmi um sterku sögnina dífa frá miðri 19. öld en henni bregður enn fyrir í textum.“
Í Kvennablaðinu 1904 segir: „Síðan deif hún pennanum í blekið og skrifaði svo bréfið til enda.“ Í Vikunni 1961 segir: „Hann gekk að skálinni, deif fingri í vatnið og gerði krossmark fyrir sér.“ Í Norðurslóð 2000 segir: „síðan deif hann hönd hennar í skálina.“ Í Vísi 1945 segir: „Við stóðum á flóðgörðunum og difum tánum í leirinn.“ Í Austurlandi 1982 segir: „Við difum fingri í hlýja laugina við Laugará.“ Í Höfuðstaðnum 1916 segir: „Klæðum sínum og görmum difu þeir með áfergi í blóð píslarvottsins.“ Í Alþýðublaðinu 1948 segir: „Dvergarnir difu stórum burstum í pottana.“ Í Ísafold 1895 segir: „Fæstir vilji borða brauðbita, sem difið hafi verið ofan í for.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Clio Dulaine hafði aldrei difið hendi sinni í kalt vatn.“
Sterku myndirnar virðast hafa verið nokkuð algengar á fyrri hluta síðustu aldar en farið fækkandi eftir miðja öldina og eru nú nær horfnar – aðeins fimm dæmi eru um deif í Risamálheildinni en engin um aðrar myndir nema difið. Það er ekki heldur þannig að allar myndir sagnarinnar hafi orðið sterkar. Í nútíð eintölu mætti búast við díf/dýf og dífur/dýfur en veiku myndirnar dýfi og dýfir virðast nær einhafðar. Sterka beygingin kemur fram í þátíðarmyndunum deif í fyrstu og þriðju persónu eintölu og difum og difu í fyrstu og þriðju persónu fleirtölu – annarrar persónu myndirnar deifst og difuð virðast ekki koma fyrir. Lýsingarhátturinn difið tíðkast þó enn nokkuð í sambandinu hafa aldrei difið hendi í kalt vatn.