Posted on

Á RÚV að hætta starfsemi á ensku og pólsku?

Í umræðum á Alþingi í gær sagði þingmaður: „Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að beita fullum þunga ríkisvaldsins til þess að senda skýr skilaboð um að íslenska sé og verði eina almenna og viðurkennda samskiptamálið í okkar þjóðfélagi.“ Ég get sannarlega tekið undir það að æskilegt og mikilvægt er að íslenska sé og verði aðalsamskiptamálið í landinu, en ekki endilega það eina – hugum aðeins að því hvað „eina almenna og viðurkennda samskiptamálið“ merkir. Ef það væri tekið bókstaflega merkti það t.d. að Pólverjar á Íslandi, sem eru á þriðja tug þúsunda, mættu ekki nota pólsku í samskiptum sín á milli. Ég vona – og þykist vita – að þingmaðurinn hafi ekki átt við þetta, en spurningin er samt: Hvar ætti að draga mörkin?

Jafnvel þótt litið sé fram hjá innbyrðis samskiptum þeirra sem eiga sama erlenda tungumálið að móðurmáli er nefnilega ljóst að það er fullkomlega óraunhæft eins og sakir standa að útiloka önnur tungumál en íslensku sem samskiptamál í landinu. Hér eru tugir þúsunda með annað móðurmál en íslensku og það fólk notar iðulega ensku sem samskiptamál – bæði við Íslendinga og við fólk sem á annað móðurmál en það sjálft. Vitanlega myndum við vilja breyta þessu, þannig að íslenska yrði samskiptamál í staðinn. En við breytum því ekki með skilaboðum frá Alþingi, hversu skýr sem þau eru. Við breytum því aðeins með breyttri stefnu í íslenskukennslu, stórauknu fé til kennslunnar, og ekki síst með breyttu viðhorfi atvinnurekenda og almennings.

Í framhaldi af ofangreindum orðum tók þingmaðurinn dæmi um „skýr skilaboð“ sem hann vildi senda um útrýmingu annarra samskiptamála en íslensku: „Ríkisútvarpið heldur núna úti mikilli starfsemi á ensku og pólsku […]. Ég mun því í þessari viku leggja fram þingmál um að Ríkisútvarpið leggi niður alla almenna starfsemi á öðrum tungumálum en íslensku.“ Það sem þarna er lýst sem „mikilli starfsemi“ eru innlendar fréttir á ensku og pólsku sem birtar eru á vef Ríkisútvarpsins. En þátttaka innflytjenda í þjóðfélagsumræðu og kosningum er lítil og því er mjög mikilvægt fyrir lýðræðið í landinu að fólk sem hér býr og starfar eigi aðgang að fréttum um það helsta sem er að gerast hér og geti þannig fylgst eitthvað með þjóðfélagsumræðunni.

Í svari sínu benti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra á „að íslenskt samfélag hefur í talsverðan tíma núna reitt sig á erlent vinnuafl og hér búa tugir þúsunda einstaklinga sem eru í styttri eða lengri tíma hluti af okkar samfélagi, hafa haldið uppi hagvexti […]. Þetta fólk á líka sín réttindi og almannaútvarp eins og Ríkisútvarpið væri að bregðast sínum skyldum ef það kæmi ekki lágmarksskilaboðum á framfæri og að einhverju leyti á móti við þennan mikilvæga hóp.“ Við þetta má bæta því að fólk af erlendum uppruna sem starfar hér greiðir útvarpsgjald rétt eins og Íslendingar og því er ekki hægt að telja það óeðlilegt að Ríkisútvarpið sinni því eitthvað. Íslenskunni stafar engin hætta af fréttum Ríkisútvarpsins á ensku og pólsku.

Það er mikilvægt að auka veg íslenskunnar sem mest og stuðla að aukinni notkun hennar á öllum sviðum – um það erum við þingmaðurinn hjartanlega sammála. En nauðsynlegt er að barátta fyrir eflingu íslenskunnar sé rekin á jákvæðum nótum – það þarf að vera barátta fyrir íslenskunni en ekki barátta gegn öðrum tungumálum. Grundvallaratriðið er að stórauka kennslu í íslensku sem öðru máli, og breyta viðhorfi Íslendinga til „ófullkominnar“ íslensku. Tillaga um að leggja niður fréttir Ríkisútvarpsins á ensku og pólsku er sýndarmennska sem sendir röng skilaboð, er hvorki til þess fallin að auka velvilja innflytjenda í garð íslensku og íslenskra stjórnvalda né til að hvetja þá til íslenskunáms, og verður ekki kölluð annað en lýðskrum.