Í umræðum um íslenskukunnáttu og íslenskukennslu er því iðulega haldið fram, og hneykslast á, að verið sé að draga úr kröfum til nemenda. Þetta hefur komið skýrt fram í Laxnessumræðu síðustu daga en er ekki nýtt og hefur t.d. oft verið nefnt í sambandi við málfræðikennslu og meinta undanlátssemi í baráttu gegn „þágufallssýki“ og öðrum „málvillum“. Í þessari umræðu er oft notað líkingamál úr hástökki og því haldið fram að verið sé að „lækka rána“. En þá gleymist að sú hæð rárinnar sem hástökkvari kemst yfir fer ekki eingöngu eftir stökkkrafti hans heldur einnig lengd atrennunnar. Þótt heimsmet karla í hástökki sé venjulega sagt vera 2,45 metrar er metið í hástökki án atrennu ekki nema 1,70 metrar – aðeins 69% af hinu.
Það er engin ástæða til að ætla að stökkkraftur nemenda – námsgeta þeirra og áhugi – sé minni en áður þegar kemur að íslenskunámi. En vegna þess hversu mikið málumhverfið hefur breyst undanfarna öld er óhjákvæmilegt að þegar nemendum á þriðja tug tuttugustu og fyrstu aldar er gert að stökkva í málheimi fyrri hluta tuttugustu aldar, hvort sem hann birtist í skáldsögum Halldórs Laxness eða reglum Björns Guðfinnssonar um „rétt“ mál og „rangt“, þurfi þau lengri atrennu en áður – ef ránni er haldið í sömu hæð. Ef lengd atrennunnar er óbreytt en ránni haldið í sömu hæð og áður er því í raun verið að gera auknar kröfur til nemenda. Ef við viljum ekki að ráin sé lækkuð þarf þess vegna að huga að því hvort og hvernig hægt er að lengja atrennuna.
Lenging atrennu getur til dæmis falist í góðum stuðningi og leiðsögn kennara og ég efast ekkert um að víða sé verið að gera vel í þeim efnum. En lengingin gæti líka krafist aukins tíma til íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum og spurning hvort vilji eða forsendur séu til þess. Langbest væri samt ef atrennan hæfist strax við upphaf máltöku, með lestri fyrir börn og með þeim – en þar að auki þurfa foreldrar að vera börnum sínum góð fyrirmynd. Það er mikilvægt að bækur séu til og sýnilegar á heimilum og börn alist upp við það að eðlilegt og sjálfsagt sé að bækur séu í kringum þau og foreldrar þeirra lesandi, bæði fyrir sig og börnin. Ef börn sjá foreldra sína aldrei lesa bækur eru ekki miklar líkur á að þau fái sjálf áhuga á lestri.
Þess vegna er það mikið áhyggjuefni þegar ungt fólk í framhaldsskólum segist sjaldan eða aldrei lesa bækur utan skólans. Búast má við að margt af þessu unga fólki verði foreldrar innan fárra ára og ef þau verða ekki farin að lesa þá munu börn þeirra varla fá mikinn áhuga á lestri heldur. Þetta er því vítahringur sem nauðsynlegt er að brjótast út úr og það verður ekki lögð of mikil áhersla á mikilvægi heimilanna í þessu sambandi. Skólarnir þurfa vissulega að taka við og koma til móts við nemendur á ýmsan hátt en þeir geta ekki byggt ofan á grunn sem ekki hefur verið lagður. Tímabundin lestrarátök eru ekki líkleg til að skila miklum árangri vegna þess að þetta er langtímaverkefni sem aldrei lýkur, og við verðum öll að taka virkan þátt í.