Posted on

Eðlilegar kröfur um íslenskukunnáttu

Þegar komið er inn í verslun eða á veitingastað og starfsfólk ávarpað á íslensku er svarið iðulega „English please“. Fólk verður oft pirrað yfir þessu og það er eðlilegt – íslenska er opinbert mál á Íslandi og við eigum að geta vænst þess að geta notað hana við kaup á hvers kyns vörum og þjónustu. En í staðinn fyrir að taka pirringinn út á starfsfólkinu, eða yppta öxlum og skipta yfir í ensku án frekari umhugsunar, ættum við að velta aðeins fyrir okkur hvers vegna þetta er svona. Hvernig stendur á því að fólk í þjónustustörfum getur ekki talað tungumál landsins – og virðist stundum ekki sjá neina ástæðu til þess? Hugsaðu þér nú að þú sért útlendingur sem er kominn til Íslands til að vinna. Þú veist lítið um landið og ekkert um tungumálið sem þar er talað.

Það fyrsta sem mætir þér við komuna til landsins eru skiltin í Leifsstöð þar sem enska er víðast hvar enn með stærra letri á undan íslensku þrátt fyrir ítrekuð loforð um breytingar. Svo tekurðu flugrútuna til Reykjavíkur þar sem þú hefur bókað gistingu í nokkrar nætur í „X Apartments“ stutt frá Hlemmi. Þar eru allar merkingar og upplýsingar eingöngu á ensku. Daginn eftir röltirðu niður Laugaveginn og heyrir heilmikla ensku og önnur tungumál sem þú kannast við – og hugsanlega einhverja íslensku en þú getur ekki vitað það því að þú þekkir ekki málið. En á þessari göngu sérðu að nær allar verslanir og veitingastaðir heita enskum nöfnum, og nær öll skilti og merkingar eru á ensku. Sama máli gegnir um matseðla fyrir utan veitingastaði.

Þú ferð inn á veitingastað í miðborginni til að spyrjast fyrir um möguleika á vinnu. Þér er sagt að það vanti alltaf fólk og spurt hvort þú getir byrjað á morgun. Samtalið fer vitanlega fram á ensku, og ekki er minnst á kröfur um íslenskukunnáttu. Enda hvarflar ekki annað að þér eftir áðurgreind kynni af Íslandi en enska sé opinbert tungumál í landinu, eða a.m.k. alls staðar gjaldgeng. Þess vegna veist þú ekki hvaðan á þig stendur veðrið þegar viðskiptavinur ávarpar þig á máli sem þú skilur ekki en giskar á að hljóti að vera íslenska. Kannski finnst þér þetta dónaskapur af því að þú vissir ekki betur en enska væri aðalsamskiptamál landsins. Kannski segirðu þess vegna óþarflega hvatvíslega „English please“ og pirrar viðskiptavininn.

Það sem ég er að benda á með þessu er að það er alls staðar verið að senda þau skilaboð að enska sé fullgilt samskiptamál á Íslandi og það hefur vitanlega leitt til þess að mörgum sem hingað koma finnst eðlilegt að nota hana en ástæðulaust að læra íslensku. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja bera þarna mikla ábyrgð – þeir senda þessi skilaboð með skiltum og merkingum, og þeir hafa svikist um að gera kröfur um íslenskukunnáttu til starfsfólks síns. En ábyrgðin er líka hjá okkur, almennum málnotendum – við höfum látið þetta viðgangast, látið þetta yfir okkur ganga án þess að mótmæla kröftuglega. Við eigum auðvitað ekki að láta bjóða okkur þetta. Við eigum að krefjast þess að geta notað íslensku á öllum sviðum.

Það er samt vitanlega ekki þannig að við getum skellt slíkri kröfu á fyrirvaralaust. Það verður að gefa fólki aðlögunartíma til að læra íslensku – annað er vitanlega ótækt gagnvart fólki sem hingað hefur komið og ráðið sig í vinnu án þess að til þess væru gerðar nokkrar kröfur um íslenskukunnáttu. Við súpum seyðið af því að hafa ekki verið búin undir straum innflytjenda á síðustu 10-15 árum og hafa ekki mótað neina stefnu á þessu sviði heldur flotið sofandi að feigðarósi. En ég legg áherslu á að krafan um íslenskukunnáttu starfsfólks á ekki að beinast að fólkinu sjálfu heldur að atvinnurekendum – það eru þeir sem þurfa að sjá til þess að starfsfólk þeirra hafi tíma, aðstöðu og fjárhagslegar forsendur til að læra málið.