Þegar ég stofnaði hópinn „Málspjall“ fyrir rúmum fimm árum var eitt helsta markmiðið að efla jákvæða umræðu um íslenskuna – mér fannst allt of mikil neikvæðni og oft á tíðum Þórðargleði ríkja í umræðunni, ekki síst í „Málvöndunarþættinum“. Þetta hefur að einhverju leyti tekist – ég hef leitast við að skrifa hér fræðandi pistla um ýmis tilbrigði í málinu og svara fyrirspurnum án þess að fordæma tilbrigði. En ég átta mig á því að í seinni tíð hefur umræðan orðið neikvæðari en skyldi, og á því ber ég fulla ábyrgð með fjölmörgum pistlum um dapurlegar framtíðarhorfur íslenskunnar og óþarfa enskunotkun á ýmsum sviðum. Hvorugt er sérlega upplífgandi eða jákvætt og því í fullkominni andstöðu við upphafleg markmið hópsins.
Vissulega hef ég það mér til afsökunar að markmið skrifanna er ekki að hneykslast heldur að vekja fólk til vitundar um stöðu íslenskunnar og brýna það til að gera betur, og ég held að það sé mikilvægt og geri vonandi eitthvert gagn. En það breytir því ekki að þetta setur neikvæðan svip á umræðuna og hætt er við að það fæli fólk frá hópnum. Og ekki bara það – hættan er líka sú að þessi neikvæða umræða verki þveröfugt við það sem stefnt er að og dragi úr trú fólks á íslenskuna og framtíð hennar. Þarna er vandrataður vegur milli hvatningar sem blæs fólki í brjóst heilbrigðum metnaði fyrir hönd íslenskunnar og trú á framtíð hennar, og svo svartagallsrauss sem fyllir fólk bölsýni og sannfærir það um að íslenskan sé á fallandi fæti.
En þrátt fyrir að umræðan undanfarið – ekki bara í „Málspjalli“ heldur líka annars staðar – hafi oft verið með neikvæðum formerkjum hefur hún sýnt að áhugi á stöðu íslenskunnar er mikill. Áskorunin er því að virkja þann áhuga til raunverulegra aðgerða – án þess að gera tunguna að pólitísku bitbeini um leið. Það er vel hægt – umræða um minnkandi lestur á skáldsögum Halldórs Laxness í framhaldsskólum hefur til dæmis kallað fram ýmsar frásagnir af frjórri og skapandi íslenskukennslu í skólum. Það þarf að snúa neikvæðum barlómi og tuði upp í jákvæða umræðu um hvað hægt sé að gera – og gera það síðan. Það er nefnilega ýmislegt hægt að gera, og flest af því kostar ekki neitt – nema smávegis hugsun og tillitssemi. Þar má m.a. nefna:
Að tala sem mest við börn og unglinga og fjölga símalausum samverustundum barna og foreldra; að lesa fyrir börnin og með þeim, hvetja þau til lestrar og vera þeim góð fyrirmynd á því sviði; að nota alltaf íslensku ef þess er nokkur kostur og vera uppörvandi við fólk sem er að læra málið í stað þess að leiðrétta það óumbeðið eða skipta yfir í ensku; að þrýsta á stjórnvöld að móta stefnu um móttöku og inngildingu innflytjenda og fylgja þeirri stefnu eftir með aðgerðum; og vitaskuld að vera jákvæð og skapandi í okkar eigin málnotkun og sýna málnotkun annarra virðingu og umburðarlyndi þótt hún sé önnur en við teljum rétta eða erum vön. Margt fleira mætti nefna og ég heiti á ykkur að fylla „Málspjall“ af jákvæðum fréttum af íslenskunni.

+354-861-6417
eirikurr