Í frétt á vef Ríkisútvarpsins nýlega stóð: „Svo eiga sumir gripir það til að dala uppi á heimilum fólks.“ Í „Málvöndunarþættinum“ var réttilega bent á að dala uppi ætti væntanlega að vera daga uppi, enda hefur þessu nú verið breytt. Mér fannst samt forvitnilegt að kanna hvort þetta væri einföld innsláttarvilla eða hvort einhver fleiri dæmi væru um dala uppi í þessari merkingu – og svo reyndist vera. Í Víkurfréttum 2005 segir: „Hvar ætli það verkefni hafi dalað uppi?“ Á Twitter 2018 segir: „Þetta má ekki dala uppi eins og Sundabrautin.“ Í Ljósmæðrablaðinu 2021 segir: „Hugmyndir koma stundum viljandi og stundum óvænt, sumar dala uppi snemma.“ Í Vísi 2022 segir: „Svo þornuðu sjensarnir upp og hann dalaði uppi einn.“ Örfá önnur dæmi má finna.
Sambandið daga uppi er skýrt 'gleymist, verður afgangs' í Íslenskri nútímamálsorðabók. En þar er einnig gefið sambandið <tröllið> dagar uppi – 'tröllið verður að steini (þegar dagsbirtan fellur á það)'. Þar er komin upphafleg merking sambandsins sem víða kemur fyrir í þjóðsögum en merkingin 'gleymist, verður afgangs' er yfirfærð – og mjög eðlileg. En ef fólk þekkir ekki þessi tengsl eða áttar sig ekki á þeim verður merking sambandsins ekki gagnsæ og það skapar forsendur fyrir breytingum. Hugsanlegt er að málnotendur tengi þetta við sögnina dala sem merkir 'fara aftur, versna' – þarna munar aðeins einu hljóði og þótt merkingin sé ekki sú sama er alveg hægt að sjá ákveðinn merkingarskyldleika. Þetta er þó bara órökstudd tilgáta.
Í framangreindum dæmum um dala uppi sést ekki hvort frumlagið er í nefnifalli eða þolfalli, en í Íslenskri nútímamálsorðabók kemur fram að fall frumlagsins með sambandinu daga uppi geti verið hvort heldur sem er. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók er sambandið hins vegar eingöngu gefið með þolfallsfrumlagi, og í Málfarsbankanum segir: „Sögnin daga er ópersónuleg. Með henni stendur frumlag í þolfalli. Frumvörpin dagaði (ekki „döguðu“) uppi í þinginu. Tröllkarlana dagar uppi.“ Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2007 nefnir Jón G. Friðjónsson setninguna „þá erum við eins og nátttröll sem hafa dagað uppi í breyttum heimi“ sem dæmi um setningu „þar sem vikið er frá málvenju“. En það er hæpið.
Í greininni „Sagnir með aukafallsfrumlagi“ í Íslensku máli 1997 segir Jóhannes Gísli Jónsson: „Aukafallsfrumlag er sjaldan þolandi og aukafallsfrumlag með þetta merkingarhlutverk hefur tilhneigingu til að fá nefnifall.“ Sem dæmi um þetta nefnir hann „Tröllskessuna (þf.) àTröllskessan (nf.) dagaði uppi“. Þetta er fjarri því að vera nýtt. Í Þjóðólfi 1893 segir: „þau döguðu uppi, voru ekki útrædd.“ Í Kirkjublaðinu 1894 segir: „flögðin döguðu uppi fyrir hinni upprennandi morgunsól.“ Í Vikuútgáfu Alþýðublaðsins 1929 segir: „Hún dagaði uppi.“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Áskorun þessi dagaði uppi í þinginu.“ Svo mörg og gömul dæmi eru um nefnifall með daga uppi að það hlýtur að teljast málvenja og jafnrétt og þolfall.
Nú spyrjið þið kannski: Hvers vegna í ósköpunum að eyða púðri í dala uppi sem er augljós villa sprottin af misskilningi eða misheyrn og hefur lítið breiðst út? Svarið er að það er alltaf gaman og áhugavert að skoða tilbrigði í málinu og velta því fyrir sér hvernig og hvers vegna þau koma upp. Tilbrigði af þessu tagi – sem í upphafi eru auðvitað málvillur – geta nefnilega sagt manni ýmislegt um eðli málsins og málbreytinga, og stundum breiðast þau út og verða á endanum rétt mál. Athuganir á svona tilbrigðum geta líka leitt mann út á aðrar áhugaverðar brautir – ef ég hefði ekki farið að garfa í dala uppi hefði ég ekki áttað mig á tilbrigðunum í frumlagsfalli með daga uppi. En aðallega er ég samt að skrifa um þetta vegna þess að mér finnst það svo gaman.

+354-861-6417
eirikurr